Fótbolti

Róbert Frosti seldur til GAIS: „Kem síðan til baka að láta hinn rætast“

Sindri Sverrisson skrifar
Róbert Frosti Þorkelsson er farinn frá Stjörnunni.
Róbert Frosti Þorkelsson er farinn frá Stjörnunni. Vísir/Pawel Cieslikiewicz

Draumur Róberts Frosta Þorkelssonar um að verða atvinnumaður í fótbolta er að rætast því Stjarnan hefur selt hann til sænska félagsins GAIS. Róbert Frosti ætlar svo síðar að láta annan draum rætast, með Stjörnunni.

Róbert Frosti er aðeins nítján ára gamall en hefur þegar spilað 55 leiki í Bestu deildinni og skorað í þeim þrjú mörk.

Nú heldur þessi kraftmikli og sókndjarfi leikmaður til Svíþjóðar og í lið GAIS sem endaði í 6. sæti sænsku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð. Samningur Róberts Frosta gildir til næstu fimm ára.

„Ég vil nota tækifærið og þakka eftirtöldum aðilum: Jökli, Ejub og Ragga Trausta fyrir að hafa gert mig að betri leikmanni, frábærum liðsfélögum og síðast en ekki síst Hauki Þorsteins og Silfurskeiðinni,“ segir Róbert Frosti í tilkynningu frá Stjörnunni.

„Það hefur verið heiður að spila fyrir ykkur. þið eruð hjartað í þessu félagi.

Það er alveg jafn stór draumur hjá mér að verða Íslandsmeistari með Stjörnunni og að spila fótbolta erlendis. Nú ætla ég að eltast við annan af þessum draumum. Ég kem síðan til baka að láta hinn rætast,“ segir Róbert Frosti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×