Ísland mætir Argentínu á sunnudaginn og þarf að byrja á að vinna þann leik. Svo þarf að bíða og vonast eftir greiða frá annað hvort Slóveníu eða Grænhöfðaeyjum, að þau taki stig af Króatíu eða Egyptalandi.
Til að komast í 8-liða úrslit hefði Ísland mátt við að hámarki þriggja marka tapi í kvöld en nú er staðan þannig að ef Ísland, Króatía og Egyptaland enda saman efst og jöfn verður Ísland neðst þeirra þriggja vegna innbyrðis úrslita (Íslendingar unnu þriggja marka sigur á Egyptum sem unnu Króata með fjögurra marka mun).
Þetta gerist ef Króatía vinnur Slóveníu á sunnudaginn, Egyptaland vinnur Grænhöfðaeyjar og Ísland vinnur Argentínu. Með öðrum orðum ef öll úrslit verða samkvæmt bókinni.
Þrátt fyrir að hafa unnið fyrstu fjóra leiki sína á mótinu er íslenska liðið í þeirri stöðu að falla úr leik nema það vinni Argentínu, og Slóvenía nái í jafntefli eða sigur gegn Króatíu (og svo geta mestu bjartsýnismenn vonast eftir því að Grænhöfðaeyjar nái í stig gegn Egyptalandi en það er útilokað).
Ef Slóvenía hefði tekið stig af Egyptalandi fyrr í dag hefði Ísland dugað að vinna Argentínu til að komast í átta liða úrslit. En Egyptar unnu eins marks sigur, 26-25, og eru í kjörstöðu til að komast áfram. Til að það gerist þurfa þeir einungis að vinna Grænhöfðeyinga.
Allir þrír leikirnir í lokaumferð milliriðils 4 fara fram á sunnudaginn. Klukkan 14:30 mætir Ísland Argentínu, klukkan 17:00 eigast Egyptaland og Grænhöfðaeyjar við og klukkan 19:30 er komið að leik Króatíu og Slóveníu.