Irina Viner er heimsfrægur fimleikaþjálfari frá Rússlandi sem réði í ríkjum í rússneskum fimleikum í meira en tuttugu ár og náði hún mjög góðum árangri á þeim tíma.
Viner er nú 76 ára gömul og eins og er í tveggja ára banni fyrir að gagnrýna dómara opinberlega eftir Ólympíuleikana í Tókýó 2021.
Það virðist þó hafa verið ýmislegt í gangi á bak við tjöldin en völd Viner voru rosalega mikil í rússneska fimleikaheiminum. Aftonbladet segir frá.

Viner hefur nú verið sökuð um að reka hálfgert vændishús fyrir ríka rússneska viðskiptajöfra sem vildu komast í sambönd með fimleikastjörnunum hennar.
Þegar fimleikakonurnar voru komnar yfir sitt besta á keppnisgólfinu og þá var Viner með kerfi í gangi til að reyna að koma þeim í sambönd við ríka rússneska karlmenn.
Úkraínska fimleikakonan Ganna Rizatdinova kom fram með þessar ásakanir á hendur Viner.
„Þegar þær hættu að keppa á Ólympíuleikum og voru komnar yfir sitt besta á ferlinum þá var þeim stillt upp fyrir framan karlmenn. Viner sagði: Veldu einhvern,“ sagði Rizatdinova og líkti þessu við vændishús.
Irina Viner var sjálf gift ólígarkanum Alisher Usmanov í þrjátíu ár en hann var einu sinni ríkasti maður Rússlands. Hún er líka sögð eiga heiðurinn á því að koma Vladimir Putin forseta í samband við Alinu Kabaeva. Kabaeva er fyrrum fimleikakona og hefur verið viðhald Putin í fjöldamörg ár.
Viner neitar þessum ásökunum. „Ég valdi ekki samböndin hjá fimleikastelpunum mínum. Ég reyndi meira segja að koma í veg fyrir að Amina Zaripova færi að hitta Aleksey Kortnev af því að hann átti eiginkonu og börn. Hún hlustaði ekki á mig og sagði við mig: Ég elska hann,“ sagði Viner.
„Ég sjálf hafði gert það sama [þegar hún hitti Alisher Usmanov] og sagði því: Allt í lagi ef þú elskar hann, haltu þessu áfram. Þau enduðu á því að gifta sig og eignast börn saman,“ sagði Viner við Sport24.
Amina Zaripova er nú 48 ára gömul en hún keppti í nútíma fimleikum á tíunda áratugnum og varð fimm sinnum heimsmeistari Árið 2022 giftist hún tónlistarmanninum Aleksey Kortnev sem er tíu árum eldri en hún.