Stjórnarflokkarnir tveir hafa deilt um innleiðingu á þremur tilskipunum Evrópusambandsins sem eru hluti af svonefndum fjórða orkupakka þess. Verkamannaflokkurinn vill innleiða þær strax en Miðflokkurinn hafnar nánari samvinnu við Evrópu í orkumálum.
Þingflokkur Miðflokksins samþykkti samhljóða að slíta stjórnarsamstarfinu á fundi í hádeginu. Trygve Slagsvold Vedum, leiðtogi flokksins, sagði að honum loknum að það kæmi ekki til greina að tengja Noreg nánari böndum við það sem hann kallaði „vanvirkan“ raforkumarkað og orkustefnu Evrópu.
Marit Arnstad, formaður þingflokks Miðflokksins, sagðist telja rétt að Jonas Gahr Støre, leiðtogi Verkamannaflokksins, héldi áfram sem forsætisráðherra minnihlutastjórnar. Støre hefur boðað til blaðamannafundar um stjórnarslitin klukkan 14:00 að íslenskum tíma.
„Við verðum staðreyndamiðaður og uppbyggilegur stjórnarandstöðuflokkur en við viljum vera kýrskýr um að við viljum breytingar á rafmagns- og orkustefnunni,“ sagði Arnstad.
Vedum boðaði að Miðflokkurinn ætlaði að reyna að mynda meirihluta á þingi um nýja raforkustefnu á þeim fimm nánuðum sem eru eftir af þessu þingi. Kjósa á til þings í Noregi í september.
Raforkuverð hefur verið í hæstu hæðum í Noregi upp á síðkastið og báðir stjórnarflokkar hafa lýst áhuga á að hætta útflutningi á rafmagni til Danmerkur til þess að reyna að snúa þeirri þróun við.