Íslenski boltinn

Ekki hrifinn af tvö­faldri sekt frá KSÍ: „Af hverju að gera það?“

Aron Guðmundsson skrifar
Kári Árnason, yfirmaður knattspyrnumála hjá Víkingi Reykjavík 
Kári Árnason, yfirmaður knattspyrnumála hjá Víkingi Reykjavík  Vísir/EINAR

Með því að spila ólög­legum leik­manni, Stíg Diljan Þórðar­syni, í þremur leikjum í Reykja­víkur­mótinu hefur lið Víkings Reykja­víkur sankað að sér sektum. Félagið vissi að með því að spila honum myndu þeir fá sekt en þeim finnst tvöföld sekt eftir síðasta leik frá KSÍ aðeins of vel í lagt.

Stígur Diljan kom heim til Víkings Reykja­víkur frá Triestina á Ítalíu en þar sem að henn kemur frá félagi er­lendis frá fær hann ekki félags­skipti fyrr en þann 5.febrúar næst­komandi þegar að félags­skipta­glugginn opnar og var hann því ekki lög­legur á nýaf­stöðnu Reykja­víkur­móti.

Þrír leikir, þrjár sektir sem áttu að hljóða upp á 60 þúsund krónur fyrir hvern leik en Víkingar ráku upp stór augu þegar að 60 þúsund krónurnar voru orðnar að 120 þúsund krónum eftir þriðja og síðasta leik liðsins á mótinu. Sam­tals hljóða því sektirnar þrjár, fyrir leikina þrjá, upp á 240 þúsund krónur.

En hver er ástæða þess að Stígur Diljan, ólög­legur í mótinu, er látinn spila þessa leiki?

„Hún er mjög ein­föld,“ segir Kári Árna­son, yfir­maður knatt­spyrnumála í sam­tali við Vísi. „Við erum bara með nýja leik­menn í hópnum og þeir þurfa að spila. Við þurfum að spila saman lið fyrir mikilvægasta leik Víkings Reykja­víkur frá upp­hafi. Við erum að fara inn í al­vöru verk­efni á móti Pan­at­hinai­kos í Sam­bands­deild Evrópu. Ég þakka bara fyrir að það séu ekki fleiri leik­menn að koma til okkar er­lendis frá. Í fyrra voru þeir þrír: Jón Guðni, Pálmi og Valdimar. Sektin hefði lík­lega verið þrefölduð til þess að gera liðið til­búið. Nú er það bara Stígur Diljan og við mátum það bara sem svo að það væri mikilvægara að Stígur spili þessa leiki, sé partur af liðinu, farandi inn í þetta erfiða verk­efni.“

„Svo ákveður KSÍ að tvöfalda sektina allt í einu. Við erum nú aðeins að skoða það. En það endur­speglar svolítið hvernig við erum að berjast í þessu. Þetta mót skiptir í raun ekki máli, þetta er æfinga­mót og við erum að horfa á það þannig. Við vitum alveg af sektinni en svo kemur allt í einu tvöföld sekt, sem við höfum jú alveg efni á í dag en er bara svolítið skrýtið og kannski endur­speglar svolítið af­stöðu KSÍ til okkar í þessari keppni.“

Það hefur komið ykkur spánskt fyrir sjónir að fá allt í einu tvöfalda sekt í and­litið?

„Já. Í raun er þetta eitt­hvað sem skiptir engu máli, sektin. En pælingin að tvöfalda hann allt í einu í lokin finnst okkur svolítið skrýtin. Af hverju að gera það? Leyfið okkur bara að halda áfram með þetta, reyna spila strákinn í stand. Ef þetta hefðu verið fleiri leik­menn þá hefði þetta verið aðeins dýrara.“

„Hvað græðum við á því að vinna þetta?“

Mót með langa sögu og því hefur verið fleygt fram í um­ræðunni að þið séuð að sýna því van­virðingu. Hvernig svararðu því?

„Þetta er bara það sem að það er. Þetta er bara æfinga­mót. Hvað græðum við á því að vinna þetta? Akkúrat ekki neitt. Það horfa allir á þetta sem æfinga­mót, sem er þetta er. Þetta er haldið um miðjan vetur og liðin ekki komin í sitt besta form. Við erum að reyna okkar allra besta til að gera liðið til­búið í eitt­hvað verk­efni sem hefur aldrei verið tekist á við áður, sem er að spila í febrúar heima­leik okkar í Sam­bands­deildinni er­lendis sem og úti­leikinn. Við verðum bara að gera það sem í okkar valdi stendur til að gera liðið til­búið. Að fá Stíg Diljan til­búinn því hann mun spila stóran þátt í okkar tíma­bili og í þessum komandi leikjum. Þá verðum við að fá hann með í þetta. Við þurftum bara að nota þessa leiki í það.“

En geta liðin sem skrá sig til leiks á mótið ekki látið breyta reglunum varðandi lög­mæti leik­manna?

„Mótið er á vegum KRR en KSÍ tekur síðan sektar­sjóðinn til sín. Ég veit það ekki alveg en jú auðvitað er það á liðunum í landinu að breyta þessu. Við reynum kannski að ýta því í geng. Ég held það sé í allra hag að leik­menn sem eru að koma er­lendis frá geti spilað. Við lentum í þessu líka í fyrra þegar að KR-ingarnir spiluðu ólög­legum leik­manni í úr­slita­leiknum. Það er öllum sama, við hefðum aldrei kært eitt eða neitt. Þetta gerist bara ósjál­frátt, að leikirnir tapast og sektin kemur. En það er bara á liðunum að breyta því.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×