Sport

Neitaði að heilsa skákkonunni en bætti fyrir það með stæl

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vaishali Rameshbabu rétti fram höndina en Nodirbek Yakubboev lét sem hann sæi hana ekki.
Vaishali Rameshbabu rétti fram höndina en Nodirbek Yakubboev lét sem hann sæi hana ekki. Chessbase India

Skákmaðurinn Nodirbek Yakubboev kom sér í slæmu heimsfréttirnar á dögunum þegar hann neitað að taka í hendina á skákkonu fyrir viðureign þeirra.

Yakubboev hefur nú svarað gagnrýninni með sérstökum hætti. Hann baðst afsökunar með því að gefa skákkonunni bæði blóm og súkkulaði.

Skákin þeirra fór fram á móti í Wijk aan Zee í Hollandi. Þar mætti Nodirbek Yakubboev indversku skákkonunni Vaishali Rameshbabu.

Fyrir viðureignina rétti Vaishali út höndina eins og venjan er fyrir skákir en Yakubboev lét eins og hann sæi hana ekki. Hún vann síðan skákina þeirra.

„Með fullri viðringu fyrir konum og indversku skákfólki. Ég vil láta alla vita af því að ég snerti ekki aðrar konur af trúarlegum ástæðum,“ skrifaði Yakubboev á samfélagsmiðla. Hann er múslimi.

Norska ríkisútvarpið fjallaði um málið og fékk myndband frá Chessbase India þar sem mátti sjá skákfólkið hittast og fara yfir málið. Það fór vel á með þeim og Úsbekinn gaf henni bæði blóm og súkkulaði.

„Ég sé eftir því sem gerðist,“ sagði Yakubboev í myndbandinu.

„Ég skil þetta fullkomlega. Ég tók þessu heldur ekki þannig. Þú þarft ekkert að biðjast afsökunar,“ sagði Rameshbabu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×