Lífið

Vetrar­há­tíð með gagnvirkri ljósasýningu hefst í dag

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Ljósaverkið verður sett upp á Ingólfstorgi.Hér sést það í Brussel.
Ljósaverkið verður sett upp á Ingólfstorgi.Hér sést það í Brussel.

Vetrarhátíð verður sett í dag í Reykjavík. Á hátíðin að lífga upp á borgarlífið næstu daga. Allir viðburðir tengjast ljósi og myrkri með einum eða öðrum hætti og frítt er á alla viðburði.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá borginni. Þar segir að hátíðin verði sett í kvöld klukkan 18:30 á Ingólfstorgi. Einar Þorsteinsson borgarstjóri opnar þar hátíðina með því að kveikja á ljóslistaverkinu Lightbattle III. Verkið kemur frá hollenska ljósahönnunarfyrirtækinu Venividimultiplex sem sérhæfir sig í ljóslistaverkum og um er að ræða þátttökuverk sem sýnt hefur verið víðs vegar um heim og slegið í gegn.

Í uppsetningunni eru tveir gagnvirkir ljósbogar, með samtals sex reiðhjólum. Þátttakendur setjast á hjólin og hjóla eins hratt og þeir geta. Hjólin keyra upp aflið sem kveikir á LED ljósboga og eftir því sem hjólað er hraðar því sterkari verða litirnir í ljósboganum sem myndar skemmtilegt sjónarspil ljóss og lita.

Þrír meginstólpar hátíðarinnar eru Ljósaslóð, Safnanótt, sem fram fer í kvöld, og Sundlauganótt sem á sér stað á morgun.

Nánar má lesa um hátíðina á vef borgarinnar og á öðru vefsvæði borgarinnar um hátíðina. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.