Neytendur

Nammið rýkur á­fram upp í verði

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Það verður vafalítið nartað í Nóa Kropp, Kúlusúkk frá Sanbó eða Freyju Hrís á einhverjum heimilum yfir sjónvarpinu í kvöld.
Það verður vafalítið nartað í Nóa Kropp, Kúlusúkk frá Sanbó eða Freyju Hrís á einhverjum heimilum yfir sjónvarpinu í kvöld. Vísir

Kúlusúkk og þristar hafa hækkað um ríflega fjórðung í verði í lágvöruverðsverslunum á einu ári. Kílóverðið er þó enn lægra en á vinsælasta súkkulaði stærri framleiðanda sem einnig hækkar og hækkar í verði.

Kakóbrestur í Afríku, þaðan sem evrópskir súkkulaðiframleiðendur fá magnið af kakóbaununum til framleiðslu á súkkulaði, hefur valdið gífurlegum verðhækkunum á súkkulaði í Evrópu. Íslenskir neytendur eru meðal þeirra sem finna fyrir því þegar kemur að skiladögum við kassann í matvöruverslunum.

Dyggur lesandi Vísis vakti athygli fréttastofunnar á því að poki af Þristum, sem konan hans er einfaldlega sjúk í og hefur verið um árabil, kosti nú 549 krónur í Bónus. Þristur vann yfirburðarsigur meðal álitsgjafa Vísis á besta namminu fyrir áratug síðan og nýtur enn mikilla vinsælda hjá íslenskum neytendum.

Áhyggjurnar voru á rökum reistar. Þristur hefur á einu ári hækkað um 29 prósent í verði. Kúlu-súkk, sem blaðamaður sjálfur hefur neytt af kappi um árabil og orðið fyrir vonbrigðum þegar það hefur verið uppselt, hefur sömuleiðis hækkað í verði um 27 prósent á milli ára.

Snorri Páll Jónsson, framkvæmdastjóri Kólus, segir miður að þurfa að hækka verð en bendir á að þegar komi að súkkulaðivörum bjóði fyrirtækið enn lægsta verðið. Það megi sjá í krónum per kíló.

„Kakóverð hefur verið að hækka í heiminum, hefur þrefaldast á nokkrum mánuðum vegna uppskerubrests. En við erum búin að hækka verðið langminnst,“ segir Snorri Páll.

Verðlagseftirlit ASÍ gerði könnun meðal stærri sælgætisfyrirtækjanna í mars í fyrra. Þá hafði suðusúkkulaðið vinsæla hjá Nóa Siríus hækkað verulega og varaði framkvæmdastjóri hjá fyrirtækinu við frekari hækkunum á árinu og vísaði til kakóbrestsins í Afríku.

Verðlagseftirlit ASÍ vakti athygli á því í desember að verð á súkkulaði hjá Nóa Siríus hefði hækkað langmest af öllum vörum í nýrri samantekt eftirlitsins. Verðhækkun Nóa Siríus nam tæpum 23 prósentum en verðið hjá Freyju fór upp um rúm tíu prósent og sjö prósent hjá Góa Lindu.

Kólus var ekki hluti af samantekt ASÍ enda töluvert minna fyrirtæki en hin þrjú þrátt fyrir að framleiða vinsælt sælgæti. Snorri segir fyrirtækið óumflýjanlega þurfa að hækka verð en ekki sem nemi áhrifum uppskerubrestsins í Afríku.

„Við höfum verið mjög íhaldsamir og reynt að halda í okkur eins og mögulegt er,“ segir Snorri. Því miður sé ekki útséð með frekari hækkanir enda ekki í boði að gera framvirka samninga - nema þá allra stærstu fyrirtækin í einhverjum tilfellum. Óvissan sé því mikil.

„Verðið er bara á fleygiferð, og hefur verið síðan í september í fyrra.“

Vísir tók saman hækkun á nokkrum vinsælum súkkulaðivörum á milli ára, frá því í febrúar í fyrra. Aftast má sjá verð í krónum á kíló. Miðað er við verðið í Bónus:

  • Freyju Hrís 250 grömm: 879 krónur (25,9% hækkun) - 3516 krónur/kg
  • Vala bananastangir 150 grömm: 417 krónur (0% hækkun) - 2780 krónur/kg
  • Nóakropp 360 grömm: 943 krónur (18,2% hækkun) - 2619 krónur/kg
  • Freyju Mix 500 grömm: 1279 krónur (16,5% hækkun) - 2558 krónur/kg

  • Sanbó Þristar 250 krömm: 549 krónur (29,2% hækkun) - 2196 krónur/kg

  • Sanbó kúlusúkk 300 grömm: 598 krónur (27,5% hækkun) - 1993 krónur/kg
  • Góu Hraun 200 grömm: 389 krónur (21,9% hækkun) - 1945 krónur/kg
  • Nestle Smarties 130 grömm: 227 krónur (21,4% hækkun) - 1746 krónur/kg

Tengdar fréttir

Verð á kaffi sögulega hátt

Verð á kaffi hefur tekið stökk og hefur aldrei verið hærra. Verðhækkanirnar má rekja til áætlana um minni uppskeru á kaffibaunum en undanfarin ár vegna mikilla þurrka og rigninga. Kaffiframleiðendur segjast aldrei hafa séð annað eins.

Súkkulaðið verði dýrara hjá öllum um páskana

Pétur Thor Gunnarsson, framkvæmdastjóri Freyju og Atli Einarsson, viðskiptastjóri Góu-Lindu, segja von á svipuðum verðhækkunum hjá þeim og hjá Nóa Síríus. Neytendur muni finna fyrir þeim um til dæmis páskana. Þeir fóru yfir alls kyns súkkulaðitengt í Bítinu á Bylgjunni í morgun.

Kakó­verð aldrei hærra og verð­hækkanir á súkku­laði rétt að byrja

Verð á suðusúkkulaði frá Nóa Síríus hækkaði um 70 krónur á einum mánuði í Bónus eða úr 359 krónum í 429 krónur. Heimsmarkaðsverð á kakóbaunum hefur aldrei verið hærra. Auðjón Guðmundsson, framkvæmdastjóri markaðs- og sölusviðs Nóa Síríus, segir neytendur geta átt von á frekari hækkunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×