Þetta fullyrða grískir fjölmiðlar á borð við Gazzetta og Sportal sem segja að eigandinn, auðkýfingurinn Giannis Alafouzos, hafi ákveðið að sekta leikmannahópinn sinn um 400.000 evrur, eða jafnvirði um 60 milljóna króna.
Rökin fyrir sektinni virðast í besta falli vafasöm en samkvæmt grísku miðlunum vill Alafouzos með þessu refsa leikmönnum fyrir að hafa núna tapað þremur leikjum í röð.

Panathinaikos tapaði nefnilega bikarleik gegn erkifjendum sínum í Olympiacos 5. febrúar, 1-0, því næst deildarleik gegn Aris, 2-0, og loks fyrri leik sínum við Víkinga í umspili um sæti í 16-liða úrslitum Sambandsdeildarinnar, 2-1.
Sverrir Ingi Ingason er einn af þeim sem spilað hafa þessa þrjá leiki og hann verður væntanlega á sínum stað í vörn Panathinaikos í dag þegar liðið mætir Volos, liði Hjartar Hermannssonar, og freistar þess að rétta af gengi sitt.
Panathinaikos og Víkingur mætast svo í seinni leik sínum á fimmtudaginn, í Aþenu, og þangað eru Víkingar mættir eftir að hafa ferðast beint frá Helsinki til grísku höfuðborgarinnar eftir sigurinn frækna á fimmtudaginn.