Íslenski boltinn

Stað­festir brott­för Danijels sem spilar ekki á fimmtu­dag

Valur Páll Eiríksson skrifar
Danijel Djuric er á leið frá Víkingi. Þetta staðfestir Kári Árnason, yfirmaður knattspyrnumála hjá félaginu.
Danijel Djuric er á leið frá Víkingi. Þetta staðfestir Kári Árnason, yfirmaður knattspyrnumála hjá félaginu. Vísir/Samsett

Danijel Dejan Djuric, leikmaður Víkings, er sagður á leið til króatíska félagsins Istra. Kári Árnason, yfirmaður knattspyrnumála hjá Víkingi, staðfestir að hann sé á förum.

Kári er staddur í Króatíu til að ganga frá skiptunum. Hann segir við Vísi að pappírsvinnan sé gott sem frágengin og tímaspursmál hvenær skiptin verði til tilkynnt.

Kári vildi þó ekki staðfesta hvert félagið væri sem ætti í hlut. Fótbolti.net hefur eftir blaðamanninum Lorenzo Lepore að Danijel sé á leið til Istra og kaupverðið er sagt 200 þúsund evrur, sem nemur tæplega 30 milljónum króna.

Kári staðfestir jafnframt í samtali við Vísi að Danijel muni ekki taka þátt í leik Víkings við Panathinaikos á fimmtudagskvöldið kemur.

Félagsskiptaglugginn í Króatíu er opinn lengur en annarsstaðar, en í flestum Evrópuríkjum er hann opinn í janúar en lokar um mánaðarmót janúar og febrúar. Félagsskiptaglugginn í Króatíu lokar í kvöld og því þarf Istra að ganga frá skiptunum í dag.

Danijel hittir annan Íslending hjá liði Istra en Logi Hrafn Róbertsson gekk í raðir félagsins frá FH fyrir um mánuði síðan. Istra situr í áttunda sæti króatísku deildarinnar

Víkingur mætir Panathinaikos í síðari leik liðanna í umspili Sambandsdeildar Evrópu á fimmtudagskvöld í Aþenu. Víkingur leiðir einvígið 2-1 eftir fyrri leikinn í Helsinki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×