Veður

Út­lit fyrir tals­verða rigningu

Árni Sæberg skrifar
Víða verður vætusamt í dag, sér í lagi á Suðausturlandi.
Víða verður vætusamt í dag, sér í lagi á Suðausturlandi. Vísir/Vilhelm

Lægð suðvestur af landinu stýrir veðrinu í dag. Áttin er suðaustlæg, víða strekkingur og rigning, en úrkomuminna fyrir norðan. Á Suðausturlandi er útlit fyrir talsverða rigningu en víða dregur úr úrkomu seint í dag.

Þetta segir í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands. Þar segir að í fyrramálið verði austlæg átt, skýjað með köflum og dálítil væta við suðausturströndina. Síðdegis á morgun gangi skil yfir landið og gera megi ráð fyrir rigningu um tíma í flestum landshlutum. Milt verði í veðri.

Veðurhorfur á landinu næstu daga:

Á morgun:

Austan 8-15, skýjað með köflum og rigning suðaustantil, en víða rigning með köflum síðdegis.

Hiti 3 til 10 stig.

Á fimmtudag:

Austlæg átt 5-13 m/s og rigning með köflum. Hiti 0 til 9 stig, mildast syðst.

Á föstudag:

Austan 5-13 og væta með köflum, en lengst af þurrt norðanlands. Norðlægari um kvöldið og víða rigning eða slydda. Kólnar í veðri.

Á laugardag:

Norðvestan 8-13 og snjókoma eða slydda fyrir norðan, frost 0 til 6 stig. Hægari sunnan heiða og dálítil væta með köflum, hiti 0 til 5 stig.

Á sunnudag:

Norðan 8-13 og slydda eða rigning, en úrkomulítið vestanlands. Hiti breytist lítið.

Á mánudag:

Norðvestlæg átt og dálítil él fyrir norðan, en bjart með köflum sunnanlands. Frost 0 til 6 stig.

Á þriðjudag:

Útlit fyrir suðvestlæga átt með éljum, en léttir til norðaustanlands og herðir á frosti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×