Erlent

Vildi eitra fyrir for­setanum og skjóta for­seta hæsta­réttar

Samúel Karl Ólason skrifar
Jair Bolsonaro, fyrrverandi forseti Brasilíu.
Jair Bolsonaro, fyrrverandi forseti Brasilíu. AP/Eraldo Peres

Jair Bolsonaro, fyrrverandi forseti Brasilíu, hefur verið ákærður fyrir að ætla sér að fella ríkisstjórn Brasilíu og taka völd þar. Hann er meðal annars sakaður um að hafa lagt á ráðin um að myrða forseta Brasilíu og forseta hæstaréttar.

Þetta mun Bolsonaro hafa ætlað sér eftir að hann tapaði fyrir Luiz Inácio Lula da Silva í forsetakosningunum 2022

Forsetinn fyrrverandi var ákærður af ríkissaksóknara Brasilíu og markar það endalok á tveggja ára lögreglurannsókn þar sem lögreglan kærði Bolsonaro og aðra meinta samverkamenn hans til Hæstaréttar.

Sjá einnig: Bolsonaro og félagar kærðir fyrir valdaránstilraun

Þaðan var kæran send til ríkissaksóknara sem hefur nú ákært Bolsonaro og Walter Braga Netto, herforingja og varaforsetaefni, fyrir að leiða glæpasamtök sem vildu taka völdin í Brasilíu. Einnig voru 32 aðrir ákærðir í málinu og þar á meðal eru nokkrir háttsettir menn í brasilíska hernum, samkvæmt frétt Reuters.

Ákvörðun ríkissaksóknara mun nú fara aftur fyrir hæstarétt og samþykki dómarar ákærurnar, munu Bolsonaro og félagar þurfa að mæta fyrir dómara. Talið er að réttarhöld eigi að hefjast seinna á þessu ári.

Í ákærunni segir að Bolsonaro hafi ætlað sér að eitra fyrir Lula og skjóta Alexandre de Moraes, forseta hæstaréttar Brasilíu til bana.

Forsetinn fyrrverandi hafnar ásökunum og segist fórnarlamb pólitískra ofsókna, samkvæmt frétt BBC.

Sagðir hafa viljað endurmóta stjórnvöld Brasilíu

Lula vann kosningarnar 2022 með tiltölulega litlum mun í október 2022 og Bolsonaro viðurkenndi aldrei ósigur. Hann fór nokkrum dögum síðar til Bandaríkjanna en þann 8. janúar 2023 ruddust stuðningsmenn hans inn í opinberar byggingar og frömdu þar skemmdarverk og þjófnað. Um 1.500 menn voru handteknir.

Auk þess að hafa ætlað að myrða áðurnefnda menn eru Bolsonaro og félagar sakaðir um að hafa ætlað sér að reyna að ná völdum á öllum öngum opinbers valds í Brasilíu og að þeir hafi ætlað sér að endurmóta stjórnvöld Brasilíu að þeirra vilja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×