Morgunblaðið greindi frá því í gær að Kauphöllin hefði athugunarmerkt Play vegna athugasemda endurskoðenda ársreiknings félagsins fyrir síðasta ár. Í ábendingunni segir að í skýrslu stjórnar sé þess getið að þróist aðstæður á verri veg, sé ekki hægt að útiloka að félagið styrki fjárhaginn með útgáfu hlutafjár eða öðrum hætti.
Athugunarmerkingu Kauphallar er ætlað að gera markaðnum viðvart um að uppi séu sérstakar aðstæður varðandi útgefanda hlutabréfa eða hlutabréf hans, sem fjárfestar ættu að gefa sérstakan gaum.
Kauphöllin brást við
Í morgun birti Kauphöllin svo leiðréttingu á fyrri athugunarmerkingu til þess að koma í veg fyrir misskilning.
„Nasdaq á Íslandi vill árétta að ekkert mat á rekstrarhæfni félagsins felst í athugunarmerkingunni. Henni er heldur ætlað að vekja athygli á athugasemdum endurskoðanda í ársreikningi þess.“
Markaðurinn líka
Svo virðist sem einhverjum hafi ekki litist á blikuna þegar þeir sáu fréttaflutning um athugunarmerkinguna. Þegar þessi frétt er skrifuð hefur gengi hlutabréfa félagsins lækkað um 16,76 prósent og stendur nú í 0,77 krónum. Það er lægsta gengi bréfa félagsins frá upphafi. Föstudaginn 25. október síðastliðinn stóð gengið í 0,82 krónum. Gengið hefur hæst verið 29,2 krónur, þann 14. október árið 2021.
Líkt og svo oft áður þegar miklar breytingar verða á gengi hlutabréfa Play er um örviðskipti að ræða. Heildarvelta með bréfin hefur aðeins verið fimm milljónir króna í dag, í 40 viðskiptum.