Isatanbul félögin Galatasaray og Fenerbahce mætast í toppslag deildarinnar á mánudagskvöldið og leikinn dæmir Slóveninn Slavko Vincic.
Það var þó ekki aðeins Mourinho sem vildi fá erlendan dómara því tyrkneska knattspyrnusambandið fékk beiðni um slíkt frá báðum félögunum.
Hinn 44 ára gamli Vincic er mjög reynslumikill dómari. Hann dæmir í slóvensku deildinni og hefur verið FIFA dómari síðan 2010. Vincic dæmdi einmitt úrslitaleik Meistaradeildarinnar á Wembley í fyrravor sem var á milli Real Madrid og Borussia Dortmund.
Mourinho kallaði eftir ákvörðuninni á blaðamannafundi á fimmtudaginn eða áður en dómari leiksins var tilkynntur. Hann hefur margoft kvartað yfir dómgæslunni á tímabilinu.
„Þetta er mikilvægt upp á trúverðugleikann og fyrir ímynd leiksins. Ef toppdómari dæmir þennan leik og hann er toppdómari í Evrópu þá verð ég mjög ánægður með það. Ég elska að vinna eins og allir en fyrst og fremst vil ég sanngirni,“ sagði Mourinho en ESPN segir frá.
„Stundum lítur það kannski ekki þannig út en það er sannleikurinn. Auðvitað vil ég vinna og auðvitað vill mótherjinn vinna líka. Vonandi verður þetta var stór og flottur fótboltaleikur,“ sagði Mourinho.
Fenerbahce, lið Mourinho, er í öðru sæti í deildinni, sex stigum á eftir Galatasaray, sem er á heimavelli í leiknum mikilvæga.