Innlent

Af­stýrði vopnuðu ráni í Kópa­vogi: „Mér fannst ég þurfa að gera eitt­hvað“

Jón Þór Stefánsson skrifar
Bergljót lenti í stympingum við annan ræningjann.
Bergljót lenti í stympingum við annan ræningjann.

Bergljót Þorsteinsdóttir lyfjafræðingur var við störf í Austurbæjar Apóteki í Kópavogi síðastliðinn föstudagsmorgun, milli tíu og ellefu, þegar tvímenningar, líklega karl og kona, ruddust inn með byssu og piparúða og ætluðu að fremja rán.

„Ég var reyndar bara mjög slök. Ég var bara hissa. Þau voru bæði með mótorhjólahjálma, og hún var með byssu og mace,“ segir Bergljót í samtali við fréttastofu.

„Ég lendi í stympingum við hana, því ég ætlaði að ná í neyðarhnappinn, en þau vildu ekki peninga, heldur bara ADHD-lyf. Ég tókst bara á við hana, stympaðist við hana, þó hún væri með byssu og mace. Ég veit að maður á ekki að gera það, en ég bara gerði það bara samt.“

Tvímenningarnir fóru tómhentir á brott á rafhlaupahjóli.

Bergljótu tókst síðan að ná í neyðarhnappinn og tókst í kjölfarið að fæla ræningjana frá.

„Þegar ég var búinn að ýta á hnappinn öskraði ég hátt og snjallt nokkrum sinnum: „Löggan er að koma! Löggan er að koma!“ Og þá ruku þau út,“

Parið fór af vettvangi á rafhlaupahjóli og hafði ekkert upp úr krafsinu. Að sögn Bergljótar er lögreglan með góða lýsingu á þeim.

Þú segir að þú hafir verið alveg sultuslök. Hvernig tókst þér það í þessum óhugnanlegu aðstæðum?

„Mér fannst ég þurfa að gera eitthvað. Ég var ekkert hrædd, en hinar samstarfskonur mínar voru alveg skíthræddar, voru alveg skjálfandi eftir á.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×