Íslenski boltinn

Út­lit fyrir að Kjartan fylli skarð Gylfa hjá Val

Valur Páll Eiríksson skrifar
Kjartan Kári í baráttunni gegn Blikum síðasta sumar.
Kjartan Kári í baráttunni gegn Blikum síðasta sumar. Vísir/Hulda Margrét

Kjartan Kári Halldórsson gæti verið á leið til Vals frá FH. Valsmenn hafa elst við leikmanninn um hríð en Hlíðarendafélagið á þó eftir að semja um kaup og kjör.

Fótbolti.net segir FH hafa samþykkt tilboð Vals. Davíð Þór Viðarsson, yfirmaður knattspyrnumála hjá FH, vildi ekki staðfesta tíðindin við Fótbolti.net.

Samkvæmt heimildum Vísis hafi Valsmenn lagt fram tilboð upp á tíu milljónir og svo fimmtán en báðum hafi verið hafnað. FH-ingar hafi sett tuttugu milljóna verðmiða á sóknartengiliðinn unga.

Það er svipuð upphæð og Valur fékk frá Víkingi fyrir Gylfa Þór Sigurðsson á dögunum. Samkvæmt heimildum Vísis greiddu Víkingar 22 milljónir til að losa Gylfa Þór frá Val.

Kjartan Kári gæti því fyllt í skarð Gylfa hjá Valsmönnum en hann á enn eftir að ná samkomulagi við Valsmenn um kaup og kjör.

Kjartan Kári er 21 árs gamall og uppalinn hjá Gróttu. Hann var efnilegasti leikmaður Lengjudeildarinnar árið 2022 er hann lék á Seltjarnarnesi og fór þaðan til Haugesund í Noregi. Eftir stutt stopp þar hefur hann verið á mála hjá FH frá miðju sumri 2023 en hann var að öðrum ólöstuðum besti leikmaður Hafnarfjarðarliðsins á síðustu leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×