Viðskipti innlent

Tveir af hverjum þremur and­vígir sam­einingu bankanna

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, og Jón Guðni Ómarsson, bankastjóri Íslandsbanka.
Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, og Jón Guðni Ómarsson, bankastjóri Íslandsbanka. Vísir/Vilhelm

Mun fleiri eru andvígir en hlynntir sameiningu Íslandsbanka og Arion banka. Þá telja landsmenn lítinn sem engann ávinning verða af slíkri sameiningu fyrir borgara þessa lands.

Þetta er niðurstaða könnunar Maskínu þar sem spurt hvar annars vegar hvort fólk væri hlynnt eða andvígt sameiningu og hins vegar hver ávinningurinn yrði af slíkri sameiningu. Arion banki lýsti á dögunum yfir áhuga á sameiningarviðræðum en Íslandsbanki afþakkaði boð um viðræður í gær.

Alls sögðust 67 prósent landsmanna vera andvíg sameiningu, 16 prósent í meðallagi og 17 prósent sem eru hlynnt sameiningu. Þá telja 46 prósent landsmanna engan ávinning af sameiningu, 32 prósent lítinn ávinning, 11 prósent telja ávinning í meðallagi og 11 prósent sömuleiðis mikinn ávinning.

Karlar eru frekar hlynntir sameiningu en konur og hátekjufólk hlynntara en þau sem eru með lægri tekjur. Þá eru kjósendur Sjálfstæðisflokksins áberandi hlynntastir sameiningu eða um þriðjungur kjósenda flokksins.

Könnunin fór fram dagana 21. til 26. febrúar og voru svarendur 1602 talsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×