Luis Suárez átti nefnilega algjöran stórleik í þessum 4-1 útisigri.
Houston Dynamo þurfti reyndar að senda frá sér afsökunarbeiðni og bjóða stuðningsmönnum skaðabætur þar sem að Lionel Messi spilaði ekki leikinn.
Suárez sá samt eiginlega bara um að bæta áhorfendum upp fyrir það. Það má segja að hann hafi hreinlega breytt sér í Messi í forföllum hins eina og sanna.
Suárez skoraði meðal annars mjög flott mark sem Messi hefði verið stoltur af. Hann fékk boltann fyrir utan teiginn og stakk sér laglega í gegnum vörnina og skoraði með flottu vinstri fótar skoti. Mark sem Messi hefur skorað svo oft.
Suárez átti einnig þrjár stoðsendingar á félaga sína í leiknum og kom því að öllum fjórum mörkum Inter Miami í leiknum. Þrjár stoðsendingar komu fyrst og svo þetta fallega mark sem má sjá með því að fletta hér fyrir neðan.
Þetta var annar leikurinn í röð þar sem Suárez er bæði með mark og stoðsendingu en þessi 38 ára gamli kappi á greinilega mikið eftir enn.