Lyngby gerði þá 1-1 jafntefli á móti stórliði Bröndby á útivelli en heimamenn í Bröndby skoruðu jöfnunarmarkið á þriðju mínútu í uppbótatíma.
Lyngby hefur ekki fagnað sigri í dönsku deildinni síðan 30. ágúst á síðasta ári. Liðið var búið að leika tólf deildarleiki í röð án sigurs fyrir leikinn í kvöld. Nú eru þeir orðnir þrettán.
Frederik Gytkjær kom Lyngby í 1-0 á 57. mínútu og þannig var staðan í 36 mínútur.
Jordi Vanlerberghe náði þá að jafna metin og tryggja sínu liði í Bröndby stig.
Sævar Atli spilaði allan leikinn og stóð sig vel.
Bröndby er í fjórða sæti deildarinnar, þremur stigum á eftir AGF sem situr í þriðja sætinu.
Lyngby er áfram í næst neðsta sæti deildarinnar. Liðið hefur aðeins unnið einn af tuttugu leikjum en þetta var níunda jafntefli liðsins á leiktíðinni sem er það mesta í allri deildinni.