Handbolti

Hundrað pró­senta Sig­valdi í úr­vals­liði

Sindri Sverrisson skrifar
Sigvaldi Björn Guðjónsson í leik með Íslandi á HM í janúar. Hann er í hópnum sem mætir Grikklandi í þessum mánuði, í undankeppni EM.
Sigvaldi Björn Guðjónsson í leik með Íslandi á HM í janúar. Hann er í hópnum sem mætir Grikklandi í þessum mánuði, í undankeppni EM. Getty/Luka Stanzl

Sigvaldi Björn Guðjónsson, landsliðsmaður í handbolta, er í liði umferðarinnar í Meistaradeild Evrópu eftir stórkostlega frammistöðu gegn stórliði Magdeburg.

Sigvaldi gerði sér lítið fyrir og skoraði níu mörk fyrir Kolstad, úr jafnmörgum skotum, þegar liðið vann 31-27 sigur gegn Magdeburg á heimavelli sínum í Noregi.

Með Sigvalda í liði umferðarinnar eru menn á borð við Mathias Gidsel en liðsfélagi Sigvalda, Svíinn Simon Jeppsson var valinn mikilvægastur eftir að hafa skorað ellefu mörk gegn Magdeburg. Liðið og tilþrif leikmanna má sjá hér að neðan.

Magdeburg þurfti að spjara sig án Gísla Þorgeirs Kristjánssonar og Ómars Inga Magnússonar, auk fleiri meiddra leikmanna, og tapaði slagnum við Kolstad.

Þar með eru Magdeburg og Kolstad jöfn í 5.-6. sæti B-riðils, með 11 stig hvort, fyrir lokaumferð riðlakeppninnar á morgun. Magdeburg er þó öruggt um að komast áfram í keppninni.

Efstu tvö lið riðilsins komast beint í 8-liða úrslit en liðin í 3.-6. sæti komast í umspil um sæti í 8-liða úrslitunum. Kielce er í 7. sæti með 9 stig en mætir botnliði Zagreb á morgun og gæti með sigri skilið Kolstad eftir, því Kolstad mætir toppliði Barcelona á útivelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×