Sport

Sá ekki boltann fyrir tárum þegar elti­hrellirinn mætti á svæðið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Emmu Raducanu var brugðið þegar eltihrellir hennar mætti á viðureignina gegn Karolinu Muchova.
Emmu Raducanu var brugðið þegar eltihrellir hennar mætti á viðureignina gegn Karolinu Muchova. ap/Asanka Brendon Ratnayake

Tenniskonan Emma Raducanu segir að hún hafi ekki séð boltann fyrir tárum þegar eltihrellir hennar mætti á leik hjá henni á dögunum.

Eltihrellirinn mætti á leik hjá Raducanu gegn Karolinu Muchova á Dúbaí meistaramótinu fyrir tveimur vikum. Raducanu var skiljanlega brugðið og faldi sig bak við stól dómarans. Eltihrellirinn var á endanum færður í burtu og var dæmdur í nálgunarbann af lögreglunni í Dúbaí.

„Ég sá hann í fyrsta leiknum og hugsaði: Ég veit ekki hvernig ég get klárað viðureignina,“ sagði Raducanu er hún tjáði sig í fyrsta sinn um atvikið.

„Ég sá boltann hreinlega ekki fyrir tárum. Ég gat varla andað. Ég hugsaði: Ég þarf að taka mér hlé,“ bætti tenniskonan við.

Raducanu sagði að hægt hefði verið að gera hlutina á mótinu í Dúbaí öðruvísi en í kjölfar þess hafi hún fengið aukna öryggisgæslu.

„Eina sem við getum gert er að horfa á hvað gerðist og bregðast betur við í staðinn fyrir að horfa til baka og kenna aðstæðum um. Núna er tekið betur á þessu sem er það mikilvægasta. Ég er meira meðvituð núna og geri hlutina ekki endilega hlutina eftir mínu höfði. Ég er alltaf með einhverjum og alltaf undir eftirliti,“ sagði Raducanu.

Áður en eltihrellirinn mætti á mótið í Dúbaí hafði hann mætt á nokkur mót hjá Raducanu. Fyrir viðureignina gegn Muchovu nálgaðist hann Raducanu nálægt hóteli henni, færði henni bréf og tók af henni mynd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×