Skanderborg vann þá fjögurra marka sigur á Kolding á útivelli, 34-30, eftir að hafa verið fimm mörkum yfir í hálfleik, 18-13.
Kristjan Örn skoraði níu mörk úr þrettán skotum í leiknum og gaf einnig fjórar stoðsendingar.
Hann var sérstaklega öflugur í fyrri hálfleiknum með sex mörk úr aðeins átta skotum.
Skanderborg er eftir þennan sigur í þriðja til fjórða sæti deildarinnar með 27 stig í 21 leik en þetta var fjórði deildarsigur liðsins í röð.
Kristjan Örn er einmitt í íslenska landsliðshópnum fyrir komandi leiki við Grikki í undankeppni Evrópumótsins.
Það reynir á hann þar því íslenska landsliðið er án Ómars Inga Magnússonar, Viggó Kristjánssonar og Teits Arnar Einarssonar í þessum leikjum.