Skoðun

Mann­legi rektorinn Silja Bára

Arnar Pálsson skrifar

Fyrir dyrum stendur kjör til rektors Háskóla Íslands. Fimm frambærilegir Íslendingar og tveir erlendir umsækjendur eru í kjöri. Mest hefur heyrst af málefnum og áherslum íslendinganna, og ljóst er að þau eru öll hæf og atorkusöm. Öll gætu þau sinnt starfi rektors HÍ af heillindum og samviskusemi. En í kosningum þarf að velja og ég vel Silju Báru Ómarsdóttur.

Næsta rektors bíða margvísleg viðfangsefni til að efla HÍ sem mennta- og rannsóknarstofnun fyrir íslenskt samfélag og fyrirtæki. Það felur bæði í sér að sækja aukið fjármagn og efla innra starf skólans. Mikilvægasta áskorunin er sú að Íslenskir háskólar eru undirfjármagnaðir miðað við OECD og norðurlöndin - sem við viljum helst miða okkur við. Það hefur verið stefna ríkisins um nokkuð skeið að fjármagna háskólana eins og norðurlönd, en við höfum fjarlægst það markmið síðustu 5 ár. Sveltistefnan hefur þau áhrif að námsframboð minnkar, námskeið eru kennd ódýrar (færri tímar, færri verkefni eða minni snerting við samfélagið eða náttúruna) og laun háskólakennara hafa lækkað (hlutfalllega miðað við sambærilega hópa). Þetta er neikvæð þróun sem hefur þegar leitt til rýrnunar á gæðum námsins, og veldur m.a. því að sérfræðingar sækja ekki um vinnu við HÍ eða afþakka stöður vegna lágra launa. Eina leiðin til að leysa vandann er átak til að auka vitund almennings og stjórnmálamanna á hlutverki og mikilvægi háskóla fyrir íslenskt samfélag, bæði menntunar og rannsókna. Langtíma vanfjármögnun íslenskra háskóla leiðir til verri menntunar sem grefur undan velsæld, framleiðni og takmarkar framfarir samfélags okkar næstu áratugi. Einnig þarf að taka á málum innan HÍ. Þar er margvíslegur kerfislægur vandi, sem e.t.v. er erfitt fyrir leikmenn að henda reiður á. Í stuttu máli býr fjárhagslegt deililíkan til misskiptingu milli eininga skólans, mismunur í fjármögnun rannsóknarstofnana gerir það líka (sumar eru vel studdar en aðrar illa, jafnvel þótt þær séu fræðilega áþekkar), og einnig verðlaunar öfugsnúið vinnumatskerfi kennara sem stunda ákveðnar gerðir rannsókna, og refsar hinum. Treyst er á einfaldar mælistikur, bæði í útdeilingu á fjármagni innan skólans og til hans (nýja líkan ráðuneytis). En talning á birtum rannsóknargreinum er meingölluð mælistika. Frá aldamótum hefur HÍ breyst í alvöru rannsóknarháskóla en vöxturinn er ekki án verkja. Á meðan fjöldi nemenda hefur tvöfaldast frá aldamótum, hefur föstum kennurum ekki fjölgað nema um þriðjung. Ýmsa fleiri annmarka mætti taka til, eins og umhverfi erlendra nemenda og kennara, sem og aðbúnað grunnnema og nemendafélaga.

Háskólar eru mikilvægir fyrir þjálfun næstu kynslóða, og vettvangar grunnrannsókna og opinnar umræðu um mál sem brenna á landsmönnum og mannkyninu í heild. Þar má nefna loftslags- og umhverfisógnir sem geta leitt til hruns siðmenningar manna, en einnig málefni minnihlutahópa, samtvinnun þjóða og menningarheima, og nýlegar sviptingar í alþjóðamálum. Silja Bára fjallar um ytri aðstæður háskóla og innri mál, sem og hugmyndir sínar til úrbóta á vefsíðunni www.siljabara.is. Hún býr yfir mörgum mannkostum sem ég tel heppilega í rektor HÍ. Hún er skýr, yfirveguð og rökvís, jafnt í kennslustofu, tveggja manna tali og sjónvarpsviðtölum. Sérstaklega vegur þungt reynsla hennar af opinberum vettvangi, sem og vinna við stefnumótun og samninga. Gildismat hennar er mér mikilvægt, því hún setur samfélag nemenda og kennara í forgrunn. Hún þekkir vel órétti sem jaðarhópar eru beittir og jafnréttisbaráttu í víðum skilningi (t.d. hópa sem er mismunað kynferðis, kynhneigðar og uppruna). Reynsla Silju er breið, hún hefur t.d. verið stundakennari við HÍ, formaður Rauða krossins á Íslandi og fulltrúi í Háskólaráði. Á vettvangi Háskólaráðs mótmælti hún því að sáttmálasjóður var lagður niður, sem er enn eitt dæmi um hvernig vanfjármögnun hefur skert starfsemi skólans. Rektors þarf að geta talað skýrt og af sannfæringu, sameinað ólíka hópa með grunngildi þekkingarsamfélagsins að leiðarljósi. Háskólar eiga að vera opinn vettvangur samtals og skoðanaskipta, frjótt og frjálst umhverfi þar sem vandamál eru krufin, metin og lausnir þróaðar. Mýtan um sterka foringjann á ekki við um háskóla. Ég tel meira vert að HÍ hafi skýra, greinda og vandaða manneskju í stöðu rektors sem getur þjónað samfélagi háskólanemenda, kennara og annarra starfsmanna. Silja Bára er slík manneskja og sem rektor getur hún bæði eflt HÍ og íslenskt samfélag.

Höfundur er líffræðingur.




Skoðun

Sjá meira


×