Fótbolti

Sjald­séð tæki­færi Sveindísar og Ingi­björg í undan­úr­slit

Sindri Sverrisson skrifar
Sveindís Jane Jónsdóttir fagnaði sigri í dag og fékk loksins aftur að spreyta sig í byrjunarliði Wolfsburg.
Sveindís Jane Jónsdóttir fagnaði sigri í dag og fékk loksins aftur að spreyta sig í byrjunarliði Wolfsburg. getty/Inaki Esnaola

Sveindís Jane Jónsdóttir og Emilía Kiær Ásgeirsdóttir mættust í sjö mínútur þegar Wolfsburg vann Leipzig 2-0 á útivelli í efstu deild Þýskalands.

Sveindís fékk langþráð tækifæri í byrjunarliði Wolfsburg, í aðeins þriðja sinn í deildarleik á þessari leiktíð, og spilaði fram á 63. mínútu. Emilía var þá tiltölulega nýkomin inn á hjá Leipzig.

Sveindís var síðast í byrjunarliði í deildarleik þann 6. desember eftir að hafa einnig verið í byrjunarliðinu í deildarleik 20. október. Ellefu deildarleiki hefur hún hins vegar byrjað á bekknum í vetur.

Jule Brand skoraði eina mark fyrri hálfleiks og varamaðurinn Ella Peddemors skoraði seinna markið þegar skammt var til leiksloka.

Wolfsburg jafnaði því Frankfurt og Bayern München að stigum en öll liðin eru með 38 stig á toppi deildarinnar. Bayern á hins vegar leik til góða við Köln á morgun.

Íslendingaliðið í undanúrslit

Í Danmörku komst Íslendingaliðið Bröndby áfram í undanúrslit bikarkeppninnar. Ingibjörg Sigurðardóttir var á sínum stað í byrjunarliði Bröndby og Hafrún Rakel Halldórsdóttir var einnig í leikmannahópi liðsins.

Bröndby sló út AGF með 1-0 sigri þar sem Nanna Christiansen skoraði sigurmarkið úr vítaspyrnu strax á 14. mínútu.

Í undanúrslitunum verða spiluð tveggja leikja einvígi, 29.-30 mars og 17.-18. apríl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×