Fótbolti

Þjálfarinn lofaði Mikael: „Var okkar besti maður“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mikael Neville Anderson hefur leikið vel með AGF á tímabilinu.
Mikael Neville Anderson hefur leikið vel með AGF á tímabilinu. getty/Ulrik Pedersen

Uwe Rösler, þjálfari danska úrvalsdeildarliðsins AGF, hrósaði Mikael Neville Anderson í hástert eftir 1-1 jafntefli við Viborg í gær.

Viborg náði forystunni á 53. mínútu þegar Frederik Tingager skoraði sjálfsmark. Mikael jafnaði metin á 77. mínútu og þar við sat. Lokatölur 1-1.

Mikael fékk mikið hrós fyrir frammistöðu sína í gær, meðal annars frá Rösler sem var sérstaklega ánægður með sinn mann og hversu mikla fjölhæfni hann sýndi í leiknum.

„Mikael Andersson var okkar besti maður. Við hefðum viljað hafa hann aðeins framar. Hann átti mjög góðan leik, bæði sem kantmaður, kantbakvörður og miðjumaður,“ sagði Rösler um Mikael sem brá sér í ýmis hlutverk í leiknum.

Mikael hefur nú skorað fimm mörk í dönsku úrvalsdeildinni en hann hefur aldrei skorað meira á einu tímabili. Mikael hefur einnig lagt upp fimm mörk í deildinni.

AGF er í 3. sæti dönsku úrvalsdeildarinnar með 36 stig, sex stigum á eftir toppliði Midtjylland. Næsti leikur AGF er gegn Vejle á sunnudaginn. Það er síðasti leikur AGF áður en deildinni verður skipt upp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×