Fréttastofa hefur ekki upplýsingar um kaupendur og seljendur í viðskiptum morgunsins. Reynir Grétarsson, sem á stóran hlut í Sýn í gegnum félag sitt Gavia Invest, og Rannveig Eir Einardóttir, stór hluthafi í gegnum Reir ehf., segjast ekki tengjast viðskiptum morgunsins. Hið sama segir Davíð Ólafsson, framkvæmdastjóri Gildis-lífeyrissjóðs, sem er stór hluthafi í Sýn.
Aðalfundur Sýnar fer fram á föstudaginn. Ein breyting verður á stjórn Sýnar. Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, tekur sæti Rannveigar Eirar í stjórninni. Fimm eru í framboði og eru sjálfkjörin.
Verð á bréfum í Sýn tók dýfu í febrúar í kjölfar aðkomuviðvörunar eða úr 29,4 krónum á hlut í 24,2 krónur á hlut. Bréfin standa í 23 krónum á hlut en verð á þeim hefur hækkað um 3,6 prósent eftir viðskipti morgunsins.
Fram kom í máli Herdísar Drafnar Fjeldsted, forstjóra Sýnar, í uppgjöri Sýnar fyrir árið 2024 að miklar vonir væru bundnar við fjölgun viðskiptavina á árinu. Sýn hafði betur í baráttu við Símann um réttinn á enska boltanum sem verður á dagskrá íþróttastöðvar Sýnar næstu árin.
Vísir er í eigu Sýnar.