Skoðun

Sam­staðan er ó­stöðvandi afl

Helga Þórey Júlíudóttir skrifar

Nú þegar rykið er að setjast má með sanni segja að íslenskir kennarar hafa sýnt áður óþekkta samstöðu þvert á öll skólastig. Það er ótrúlega kraftmikið og hvetjandi að fylgjast með því hvernig stéttin okkar reis upp saman og sýndi að við stöndum sameinuð undir merkjum Kennarasambands Íslands. Það sýndi sig að kennarar láta ekki auðveldlega hræða sig til hlýðni og við höfum gríðarlegan styrk þegar við stöndum öll saman.

Við upplifðum tilraunir pólitískra afla til að hnekkja á starfinu okkar, en í stað þess að láta undan sýndum við fagmennsku, mikilfenglega samstöðu og kraft. Skólastarf var dregið niður í umræðunni, en almenningur sá í gegnum það og fyrir vikið styrktist traust til kennara. Stuðningur foreldra, samfélagsins og ráðamanna var augljós og aldrei hefur verið skýrara hversu mikilvæg störf okkar eru.

Það hefur verið bæði stembið og um leið mjög dýrmætt að vera kennari á þessum tímamótum. Það er eins og við höfum lyft okkur yfir neikvæða umræðu og virðingin fyrir starfi okkar hafi aukist til muna. Umræðan hófst á flug og sjálf fór ég að skrifa pistla og greinar um mikilvægi starfsins og allt það faglega sem í því felst. Sú fagmennska kemur ekki af sjálfu sér og þarf bæði að mennta sig og öðlast reynslu til að geta veitt nemendum þá menntun sem þeir eiga rétt á.

Samstaðan sem myndaðist var áþreifanleg og er hún sannarlega hvetjandi fyrir framtíðina. Ég er ótrúlega stolt að tilheyra stéttarfélagi sem stendur saman með skýr markmið: við viljum fagmennsku, stöðugleika í skólunum okkar og viðurkenningu á mikilvægi starfs okkar. Við höfum sýnt að þegar við stöndum saman erum við óstöðvandi afl og sú staðreynd mun lifa með okkur áfram.

Framtíðin er björt fyrir kennara á Íslandi. Við höfum sýnt hvað í okkur býr og við munum halda áfram að byggja upp skólasamfélag sem endurspeglar þá fagmennsku og virðingu sem störf okkar eiga skilið.

Höfundur er kennari í Tækniskólanum og situr í stjórn Skólamálanefndar FF fyrir hönd Félags sérkennara á Íslandi.




Skoðun

Sjá meira


×