Handbolti

Andrea allt í öllu og Al­dís Ásta deildarmeistari

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Andrea Jacobsen í leik með íslenska landsliðinu.
Andrea Jacobsen í leik með íslenska landsliðinu. Vísir/Hulda Margrét

Andra Jacobsen var allt í öllu þegar Blomberg-Lippe lagði Thuringer í efstu deild kvenna í þýska handboltanum. Aldís Ásta Heimisdóttir er deildarmeistari í Svíþjóð.

Andrea gerði sér lítið fyrir og var markahæst allra með átta mörk úr aðeins níu skotum í fimm marka sigri Blomberg-Lippe í kvöld, lokatölur 36-31. Díana Dögg Guðjónsdóttir er enn frá vegna meiðsla og lék ekki með Blomberg-Lippe í kvöld.

Eftir sigurinn er Íslendingaliðið komið upp í 3. sæti með 29 stig líkt og bæði Dortmund og Thuringer.

Sandra Erlingsdóttir skoraði fjögur mörk þegar lið hennar Metzingen tapaði gegn toppliði Ludwigsburg með 13 marka mun, lokatölur 41-28. Metzingen er í 6. sæti með 20 stig.

Svíþjóð

Aldís Ásta Heimisdóttir og stöllur í Skara urðu deildarmeistarar í kvöld eftir sex marka sigur á Skuru, lokatölur 28-22.

Ungverjaland 

Í Ungverjalandi átti Bjarki Már Elísson fínan leik þegar Veszprém lagði Ferencváros í 8-liða úrslitum bikarkeppninnar. Bjarki Már skoraði fjögur mörk í leik sem Veszprém vann með 16 marka mun, lokatölur 49-33. Aron Pálmarsson var ekki með að þessu sinni.

Janus Daði Smárason skoraði tvö mörk fyrir Pick Szeged sem er einnig komið í undanúrslit eftir sigur á Györ.

Sviss

Hornamaðurinn Óðinn Þór Ríkharðsson átti enn einn stórleikinn þegar Kadetten tapaði mjög svo óvænt fyrir St. Gallen í efstu deild í Sviss.  Lokatölur 33-32 St. Gallen í vil þó svo að Óðinn Þór hafi skorað 9 mörk. Þetta var fyrsta tap Kadetten í rúmt hálft ár.

Kadetten er sem fyrr í 1. sæti með 43 stig en St. Gallen er í bullandi fallbaráttu með aðeins 16 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×