Handbolti

Marta hetja Eyjakvenna

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Marta Wawrzykowska tryggði ÍBV stig sem gæti reynst dýrmætt í lok móts.
Marta Wawrzykowska tryggði ÍBV stig sem gæti reynst dýrmætt í lok móts. vísir/diego

ÍBV og Selfoss skildu jöfn, 27-27, í lokaleik 19. umferðar Olís-deildar kvenna í handbolta. Marta Wawrzykowska, markvörður Eyjakvenna, reyndist örlagavaldurinn í leiknum.

Marta varði nefnilega vítakast Huldu Dísar Þrastardóttur eftir að leiktíminn var runninn út og tryggði Eyjakonum annað stigið.

Birna Berg Haraldsdóttir kom ÍBV yfir, 27-26, en Perla Ruth Albertsdóttir jafnaði fyrir Selfoss. Ágústa Tanja Jóhannsdóttir varði svo frá Birnu Berg og Selfyssingar fengu vítakast í lokasókn sinni. Hulda tók það en Marta varði.

ÍBV er núna með tíu stig í 6. sæti deildarinnar, einu stigi á undan Stjörnunni sem er í 7. sætinu. Liðið í því sæti fer í umspil um að halda sæti sínu í Olís-deildinni. Selfoss er sem fyrr í 4. sætinu, nú með fimmtán stig.

Sunna Jónsdóttir skoraði sjö mörk fyrir ÍBV og Birna Berg sex. Dagbjört Ýr Ólafsdóttir gerði fimm mörk. Marta varði níu skot (25 prósent).

Perla var markahæst hjá Selfossi og á vellinum með átta mörk. Hulda og Katla María Magnúsdóttir skoruðu fjögur mörk hvor. Ágústa varði vel í markinu, alls nítján skot (41 prósent).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×