Erlent

Spjallklúður Hegseth, Vance og Waltz vekur hneykslan

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Trump sagðist ekkert vita um málið þegar hann var spurður út í spjallið í gær.
Trump sagðist ekkert vita um málið þegar hann var spurður út í spjallið í gær. Getty/Anna Moneymaker

Uppljóstranir Jeffrey Goldberg, ritstjóra Atlantic, um að æðstu ráðamenn í Bandaríkjunum hafi rætt skipulagningu árása á Húta í Jemen í gegnum samskiptaforritið Signal hafa vakið mikla athygli og hneykslan vestanhafs.

Goldberg var óvart boðið í spjallið, þar sem varnarmálaráðherrann Pete Hegseth, varaforsetinn JD Vance, þjóðaröryggisráðgjafinn Mike Waltz og fleiri ræddu meðal annars hvort Bandaríkjamenn ættu að ráðast gegn Hútum.

Fjöldi þingmanna Demókrataflokksins hefur gagnrýnt spjall embættismannanna en sjálfur segir Goldberg um einskæra heppni að ræða að honum hafi verið boðið í spjallið en ekki einhverjum öðrum.

Spjallið átti sér bæði utan formlegra og öruggra boðleiða og þá virðast nokkur lög hafa verið brotin, meðal annars hvað varðar varðveislu opinberra gagna. 

„Þetta er hneykslanlegt brot gegn þjóðaröryggi og hausar ættu að fjúka,“ sagði Demókratinn Chris Deluzio í yfirlýsingu. Hann sagði að hermálanefnd fulltrúadeildarinnar myndi rannsaka málið eins fljótt og auðið yrði.

Don Bacon, þingmaður Repúblikanaflokksins frá Nebraska, sagði í samtali við Axios að það væri hreint ótrúlegt að menn hefðu tekið upp á því að eiga viðkvæm samskipti með þessum hætti. 

„Ekkert af þessu hefði átt að fara um óörugg kerfi,“ sagði hann. „Rússland og Kína eru örugglega að njósna um ótryggan símann hans,“ sagði Bacon um Mike Waltz.

Bent hefur verið á að ef samskiptin áttu sér stað um símtæki, væri ekki óhugsandi að upplýsingarnar hefðu getað komist í rangar hendur og stofnað lífum bandarískra hermanna og annarra í hættu.

Mike Johnson, Repúblikani og forseti fulltrúadeildarinnar, var hins vegar á meðal þeirra sem gerðu lítið úr málinu.

„Þeir herða sig og tryggja að þetta endurtaki sig ekki,“ sagði hann í samtali við blaðamenn. „Ég veit ekki hvað annað er hægt að segja.“

Hvíta húsið hefur reynt að verja spjallið en ef marka má erlenda miðla munu stjórnvöld mögulega engu að síður þurfa að grípa til aðgerða. Þar hefur helst verið rætt um afsögn þjóðaröryggisráðgjafans Waltz, sem var sá sem bauð Goldberg í spjallið.


Tengdar fréttir

Bættu blaðamanni óvart í Signal-hóp um árásir á Húta

Svo virðist sem Mike Waltz, þjóðaröryggisráðgjafi Donalds Trump, forseta Bandaríkjanna, hafi fyrir mistök bætt blaðamanni inn í spjallhóp þar sem hann, JD Vance varaforseti, Pete Hegseth varnarmálaráðherra og fleiri töluðu um hvort Bandaríkin ættu að hefja umfangsmiklar árásir á Húta í Jemen og hvernig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×