Sport

Lífs­ferill íþróttamannsins: Við verðum að tala meira um sálina í í­þróttunum

Daði Rafnsson skrifar
Daði Rafnsson mun skrifa greinar á Vísi um lífsferil íþróttamannsins næstu vikur.
Daði Rafnsson mun skrifa greinar á Vísi um lífsferil íþróttamannsins næstu vikur. vísir/getty

„Íþróttir geta boðið ungu fólki upp á frábæra leið til að þroskast sem heilbrigðar manneskjur. Eða sem eigingjarnir asnar.“ Þetta sagði norski prófessorinn Stig Arve Sæther þegar við vorum að velta upp spurningunni hvort það væri til norræn leið í hæfileikamótun, með séreinkennum miðað við önnur svæði í heiminum.

Á Íslandi búum við við óvenjulegt íþróttalíf að því leiti að íþróttafélögin okkar eru í eigu nærsamfélagsins en ekki auðjöfra eða fyrirtækja. Svipað fyrirkomulag finnst á Norðurlöndunum en þar eru einnig til afreksmiðaðir meistaraflokkar og akademíur sem eru rekin sem fyrirtæki.

Það kann að koma mörgum spánskt fyrir sjónir miðað við almenna umræðu að íslenskt íþróttalíf, og Norðurlöndin sem sérstakt íþróttasvæði, þykir til fyrirmyndar víða um veröld. Það fyrir að skila af sér óvenjulega mörgu afreksfólki miðað við fjárráð og fólksfjölda.

Hver er sérstaða Íslands?

Þannig vill þýski prófessorinn Arne Gullich meina að Norðurlöndin hafi einfaldlega hagað sínu íþróttauppeldi og hæfileikamótun samkvæmt því sem er viðurkennt í fræðasamfélaginu. Og ekki þarf að leita lengra en í bók Viðars Halldórssonar, prófessors í félagsfræði við HÍ, sem nefnist „Sport in Iceland“ til að komast að svipaðri niðurstöðu.

En hver er sérstaða íslenska umhverfisins? Í stuttu, og rósrauðu, máli sagt felst hún í því að allir krakkar sem vilja mega prófa fjöldann allan af íþróttum í félagsskap vina sinna við góðar aðstæður með menntuðum og launuðum þjálfurum í íþróttafélögum reknum af sjálfboðaliðum í nærumhverfinu.

Það samræmist kenningum sænska íþróttasálfræðingsins Johan Fallby um að bestu hæfileikamótunarumhverfin gefi eins mörgum og mögulegt er tækifæri eins lengi og hægt er til að stunda íþróttir við eins góðar aðstæður og mögulegt er. Þannig nái það að hafa dempandi áhrif á margs konar hlutdrægni og fordóma sem einkennir nær öll íþróttaumhverfi og dregur úr árangri innan þeirra.

Árangur íslenska kerfisins má meðal annars sjá í þátttöku barna og unglinga, árangri A-landsliða í mörgum greinum og fjölda atvinnuíþróttafólks frá Íslandi. Önnur frábær hliðarafurð er sú að eftir að íslenska íþróttaumhverfið varð til í þeirri mynd sem við þekkjum hefur það haft mikið forvarnagildi fyrir íslensk ungmenni.

Uppeldi en ekki hungurleikar

Fergus Connolly, sérfræðingur í frammistöðuvísindum, hélt fyrirlestur í HR fyrir nokkrum árum. Hann hefur starfað í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu, með topp rúgbýliðum og í NFL og vildi meina að á stöðum eins og Íslandi væri áherslan á að ala upp íþróttafólk. Í stóru löndunum sem ættu ótakmarkað fjármagn og fólk væru einstaklingar einfaldlega valdir úr í hálfgerðum hungurleikum þar til örfáir standa eftir.

En nú eru blikur á lofti. Á ráðstefnu evrópskra íþróttasálfræðinga sumarið 2024 hélt kanadíski sálfræðingurinn Katie Castle áhugaverðan fyrirlestur sem snerti taugar margra sem hann sóttu. Þar lýsti hún Norður-Ameríska íþróttaumhverfinu og margvíslegum áhrifum þess á ungt fólk og fjölskyldur þeirra.

Castle lýsti þessu umhverfi frá sjónarhorni fagkonu, foreldris og fyrrverandi fimleikaþjálfara. Aðgengi barna að góðri aðstöðu og þjálfurum væri takmarkað við úrvöl frá unga aldri þar sem þeir bestu sex, tíu, tólf og fjórtán ára kæmust í gegnum inntökuferli hjá íþróttafélögum sem eru rekin í hagnaðarskyni.

Umhverfið ekki hannað að börnunum

Ef þau kæmust þar í gegn gæti kostnaður foreldra hlaupið á milljónum íslenskra króna á ári með búnaði og ferðalögum. Lítið pláss væri fyrir mistök eða að taka sér frí. Hvað þá að æfa aðrar íþróttir því þá væru aðrir einfaldlega teknir inn í staðinn.

Hún lýsti einnig áhrifum þess á börn að vera stimpluð hæfileikarík, eða ekki hæfileikarík sem og þess hversu lítið svigrúm þau hefðu fyrir að leika sér, hvíld og að jafna sig á meiðslum. Niðurstaðan var að umhverfið væri hannað fyrir eigendur íþróttaliðanna og atvinnuþjálfara, en alls ekki fyrir börn og unglinga.

Margir úr Evrópu könnuðust við ákveðinn skriðþunga í þessa átt úr sínum löndum. Meiri kostnaður, meira úrval, fleiri skipulagðar æfingar, meiri kröfur á tíma barna og unglinga, minni frjáls leikur og minni tími með vinum og fjölskyldu. Brennimerking á börnum sem hæfileikarík eða ekki.

Hættum að tala um hæfileika

Þetta gerist á sama tíma og Joe Baker, einn helsti sérfræðingur í hæfileikamótun á heimsvísu, gefur út bók sem heitir „Ofríki hæfileikanna“ (Tyranny of Talent) þar sem hann leggur til að við hættum að tala um hæfileika (talent).

Því við vitum að á bak við árangur fólks og hópa í íþróttum er svo flókið samspil einstaklingsbundinna og samfélagslegra þátta að nær ómögulegt er að segja til um það hvort einhver nái árangri, fyrr en eftir að honum hefur verið náð.

Christian Thue Bjorndal frá norska íþróttaháskólanum hefur rannsakað norska hæfileikamótunarumhverfið og hefur meðal annars komist að því að rúmlega helmingur barna sem er á afrekssviðum í grunnskólum þar í landi er meiddur að staðaldri.

Ástæðan er mikið líkamlegt álag á mikilvægu þroskatímabili og lítil samræming milli skóla, íþrótta og einkalífs. Víðast hvar sem borið er niður er ungu fólki sem sýnir áhuga og hæfni í íþróttum komið fyrir í þjálfun sem líkist því sem er borið á borð fyrir fullorðið afreksfólk.

Við berum öll ábyrgð

Kristoffer Henriksen, Carsten Hvid Larsen og Louise Kamuk Storm frá Háskólanum í Suður-Danmörku gáfu nýverið út mjög áhugaverða bók sem heitir „Allt sem þú þarft að vita um hæfileikamótun“ (All you must know about talent development). Í henni er einmitt bent á mikilvægi þess að íþróttaumhverfi sé aðgengilegt, taki mið af mismunandi þroskastigum og heildrænt, þannig að skóli, íþróttir og foreldrar vinni betur saman. Við berum öll ábyrgð á því að skila af okkur heilsteyptari manneskjum sem fá fjölbreytt uppeldi og kunni að taka mikilvægar ákvarðanir og bjarga sér í lífinu.

Storm segir að norrænar íþróttir þurfi að útskýra betur fyrir hvað þær standi. Að segja sögu sína á sama hátt og sagan frá Norður Ameríku snýst um einhyrningana sem skara fram úr vegna einstaklingshæfileika þrátt fyrir kerfið.

Hvað fær okkur til að stunda íþróttir?

Bjorndal vill meina að við verðum að ræða meira um sálina í íþróttum. Og það er hvatinn á bak við greinar sem ég ætla að birta í samvinnu við Vísi á næstu vikum.

Hvað er það sem fær okkur til að stunda þær, elska þær og skipuleggja líf okkar í kringum þær? Hvers vegna verjum við sameiginlegum sjóðum í íþróttaiðkun og hvað fáum við í staðinn? Hvernig náum við árangri? Þurfum við fleiri séræfingar, fleiri dýrar græjur, eða akademíur að mið-Evrópskum og Norður-Amerískum stíl? Eða eru aðrir hlutir sem gætu skipt meira máli?

Hvernig þekkjum við sálina í íþróttum? Hún gæti fundist í samhug Dana þegar Christian Eriksen féll í jörðina í knattspyrnulandsleik um árið. Þegar Simone Biles og Jordan Chiles hylltu Rebeccu Andrade þegar hún bar af þeim sigurorð á síðustu Ólympíuleikum eða þegar Barshim frá Katar og Tamberi frá Ítalíu deildu gullinu í hástökki í Tókyó.

Hún gæti líka leynst í vítavörslu Hannesar gegn Messi á HM, sigri körfuboltalandsliðsins á Ítalíu nýverið og ósviknum fögnuði áhorfenda þegar Sóley Margrét Jónsdóttir varð heimsmeistari í kraftlyftingum. Íþróttirnar eiga sér dökkar hliðar en eru partur af okkar sameiginlegu sögu.

Í næsta pistli fylgjum við litlu barni á sína fyrstu íþróttaæfingu.

Höfundur er fagstjóri Afrekssviðs Menntaskólans í Kópavogi, doktorsnemi við sálfræðideild Háskólans í Reykjavík og kennir Afreksþjálfun og Hagnýta íþróttasálfræði við íþróttafræðideild HR.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×