Í tilkynningu á vef Samgöngustofu segir að í kjölfar grisjunar á trjágróðri í Öskjuhlíð að undanförnu hafi Isavia innanlandsflugvellir látið framkvæma nýtt mat á aðstæðum.
Austfirska fyrirtækið Tandrabretti hefur undanfarið staðið í talsverðum framkvæmdum í Öskjuhlíð við að fella mikinn fjölda trjáa í hlíðinni.
Hindrunarfletir nú óhindraðir
Matið sýni að skilgreindir VSS-fletir séu nú án hindrana og í samræmi við mildunarráðstafanir. Samgöngustofa hafi yfirfarið gögnin og metið niðurstöðurnar.
„Með hliðsjón af þessu hefur Samgöngustofa afturkallað tilskipun um takmarkanir á notkun flugbrautar 13/31 í þágu flugöryggis, sem tók gildi 8. febrúar sl.“

Í minnisblaði Isavia til Reykjavíkurborgar um trjágróður í Öskjuhlíð eru VSS-fletir (e. visual segment surface) skýrðir svo:
1.12° undir aðflugshorni flugbrautar byrjar 60m fyrir framan flugbrautarþröskuld út frá öryggissvæði flugbrautar og gleikkar um 15% til hvorrar handar. VSS-flötur skal vera hindranalaus. Fari hindrun þó upp úr VSS-fleti er hægt að meta áhrif hennar á öryggi, þ.e. hverja og eina hindrun. Niðurstaða úr slíku mati getur verið að lækka þurfi hindranir eða fjarlægja þær alfarið.
Hafði áhrif á flugöryggi
Austur/vestur braut Reykjavíkurflugvallar hefur verið lokuð allri flugumferð síðan tilskipunin tók gildi. Lokunin var af mörgum talin mikil ógn við flugöryggi á Reykjavíkurflugvelli, enda þurftu flugmenn í auknum mæli að lenda flugvélum í hliðarvindi vegna lokunarinnar.