Körfubolti

Martin um EM dráttinn: „Yrðu al­gjör for­réttindi að mæta þeim á vellinum“

Aron Guðmundsson skrifar
Sá möguleiki er fyrir hendi að tvær af stærstu stjörnum körfuboltaheimsins um þessar mundir mæti Íslandi á EM í D-riðli í sumar.
Sá möguleiki er fyrir hendi að tvær af stærstu stjörnum körfuboltaheimsins um þessar mundir mæti Íslandi á EM í D-riðli í sumar. Vísir/Samsett mynd

Ís­lenska karla­lands­liðið í körfu­bolta var í pottinum þegar dregið var í riðla fyrir EM í gær. Riðillinn er snúinn að mati stjörnu­leik­mannsins Martins Her­manns­sonar einn af lykilmönnum ís­lenska liðsins, fékk það lið sem hann vildi helst forðast.

EM hefst undir lok ágúst­mánaðar og þar mun Ís­land leika í D-riðli í Katowice í Póllandi sem eins konar sam­starfsþjóð heima­manna. Fyrir drátt dagsins var ljóst að Pólland sem og Slóvenía yrðu í riðli Ís­lands en við riðilinn í dag bættust lands­lið Belgíu, Ís­rael, Frakk­land.

„Mér hefði alveg litist vel á þetta sama hvað,“ segir Martin í samtali við íþróttadeild. „Ég var ekki með ein­hverja óskamót­herja þannig séð og það hefði verið erfitt að setja saman ein­hvern draumariðil upp á að reyna gera ein­hverja hluti. Mér lýst bara vel á þetta. Þetta verður erfitt, það er alveg vitað og hefði orðið erfitt alveg sama hvað.“

„Það er sér­stak­lega gaman að fá Slóvenana, maður vissi að þeir væru á leiðinni í okkar riðil. Belgía, Pólland og Ís­rael eru allt svona þjóðir sem að henta okkur ekkert full­kom­lega en verður gaman að máta sig við þær. Hefði ég svo þurft að velja eitt lið úr efsta styrk­leika­flokki þá hefði ég ekki valið Frakkana. Ég skal alveg viður­kenna það. Það var það eina sem ég krossaði fingur yfir að myndi ekki gerast, að við myndum fá Frakkana. Bæði út af þeirra getu í körfu­bolta en einnig sökum þess að ég á fleiri vini í hinum lands­liðunum í efsta styrk­leika­flokki. Það hefði verið gaman að hitta þá og spila á móti þeim.“

Geimveran illviðráðanlega

„Frakkarnir eru náttúru­lega bara ógnar­sterkir. Það lands­lið sem er nú­mer tvö í heiminum í dag á eftir Bandaríkjunum en það verður kannski gaman að geta sagt frá því seinna meir að maður hafi spilað á móti Wembanyama ef hann ákveður að vera með á mótinu.“

 Victor Wembanyama í leik með San Antonio SpursVísir/Getty

Martin á þar við „geim­veruna“ Victor Wembanyama sem er 2,21 metri á hæð og spilar ekki eins og hefðbundinn maður af hans stærð. Wem­by hefur komið af miklum krafti inn í NBA deildina með liði San Antonio Spurs og aðeins 21 ára að aldri er búist við miklu frá honum í framtíðinni. Hann er einn af fjölmörgum ógnar­sterkum leik­mönnum Frakk­lands en í þessum D-riðli eru Ís­lendingar mögu­lega að fara mæta tveimur af mest spennandi leik­mönnum í heimi. Wem­by og Luka Doncic, leik­manni Los Angeles Lakers í NBA deildinni.

„Það er náttúru­lega bara mjög mikil spenna ríkjandi gagn­vart þeim mögu­leika og yrðu al­gjör forréttindi að mæta þeim á vellinum. Við værum þá að spila á móti tveimur af stærstu körfu­bolta­stjörnum í heiminum í dag. Framtíðar meðlimum í frægar­höll NBA deildarinnar ef allt gengur upp hjá þeim. Þrjár stærstu stjörnurnar á þessum móti eru þeir tveir og svo Nikola Jokic í lands­liði Serbíu. Við fáum tvær af þeim sem er geggjað og kannski enn skemmti­legra fyrir fólkið sem ætlar að flykkjast til Póllands og styðja við bakið á okkur. Að fá að sjá þessa leik­menn spila körfu­bolta með berum augum og átta sig á því hversu góðir þeir eru í raun og veru í körfu­bolta, hvað þeir eru stórir fyrst og fremst. 

Doncic í leik með Los Angeles Lakers Vísir/Getty

Menn virðast vera minni í sjón­varpinu, treystu mér ég fæ að heyra það reglu­lega. Fólk heldur að ég sé 1,70 metrar á hæð en svo sér það mig úti á götu og sér að ég er stærri en það hélt. Þetta fólk fær lík­legast sjokk þegar að það sér þá tvo með eigin augum. Ég hugsa að þetta muni draga enn þá fleiri áhorf­endur að okkar riðli. Það eru margir körfu­bolta áhang­endur sem munu koma til Póllands bara til þess eins að sjá þá tvo spila. Það gerir þetta enn þá skemmti­legra.“

„Ætla ekki að búa til einhverjar fyrirsagnir“

Þetta er í þriðja sinn sem Ís­land tekur þátt á stór­móti í karlakörfunni og er liðið í leit að sínum fyrsta sigri þar.

Ertu bjartsýnn á að við náum að landa fyrsta sigrinum?

„Ég er alltaf bjartsýnn, það breytist ekkert en ég tel að hóf­leg væntinga­stjórnun sé skyn­sam­leg í þessu. Þegar að maður horfir til baka á okkar fyrsta stór­mót árið 2015 þá fórum við þangað með engar væntingar inn í mótið og allt annað yrði bara plús. Við stóðum okkur náttúru­lega bara frábær­lega á því móti.

Tveimur árum seinna fórum við á okkar næsta stór­mót og ætluðum að sigra heiminn, vinna hvern einasta leik og vorum búnir að skrifa í daga­talið hjá okkur hvaða leikir yrðu auðveldir. Leikur gegn Póllandi yrði öruggur sigur og hitt og þetta.

Frá leik íslenska landsliðsinsvísir / anton brink

Ég ætla að reyna segja sem minnst núna. Við erum líka bara bestir þegar að við erum ekki með neinar væntingar. Förum bara inn í þetta auðvitað til þess að vinna og gera okkar besta, sjá hvert það kemur okkur. Auðvitað ætlum við að vinna, reyna að vinna alla­veganna þennan fyrsta sigur á EM og koma okkur þar með í þann hóp að vera besta ís­lenska lands­liðið í sögunni. Vera eina ís­lenska lands­liðið sem hefur unnið leik á EM, ég held að það muni sjálf­krafa koma okkur á þann stall að vera besta ís­lenska lands­lið sögunnar. 

Við sjáum bara hvað verður en ég ætla ekki að fara búa til ein­hverjar fyrir­sagnir fyrir þig á þá leið að við séum að fara vinna þrjá leiki í þessum riðli. En það eru alla­vegana þrjú lið í þessum riðli sem við eigum aðeins betri mögu­leika gegn og ég tel að fólk sem getur unnið smá heima­vinnu átti sig á því um hvaða lið ræðir þar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×