Erlent

Fundu fólk í rústunum sex­tíu klukku­stundum eftir skjálftann

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Björgunaraðgerðir standa enn yfir.
Björgunaraðgerðir standa enn yfir. EPA

Jarðskjálfti að stærðinni 7,7 mældist í Mjanmar á föstudag og olli mikilli eyðileggingu þar og í nágrannalöndum. Björgunaraðgerðir standa enn yfir og finnst fólk enn á lífi í rústunum.

Tala látinna er komin upp í sautján hundruð í Mjanmar en fjölda fólks er enn saknað. Yfir 3400 manns eru slasaðir. Nokkrir skjálftar hafa fylgt þeim stóra, einn sem mældist 6,4 á föstudag og annar sem mældist 5,1 seinnipartinn í dag.

Í dag var fjórum einstaklingum bjargað úr rústum skólabyggingar í borginni Sagaing, samkvæmt umfjöllun BBC. Þá voru liðnar tæpar sextíu klukkustundir síðan fyrsti skjálftinn reið yfir. 

Íbúarnir grafa upp aðra með berum höndum en Kína hefur sent teymi til landsins til að aðstoða við björgunaraðgerðirnar. Þá hefur hjálp borist frá Taílandi, Malasíu, Singapúr, Indlandi og Rússlandi.

Skjálftarnir áttu upptök sín inni í miðju landi.Vísir

Átján manns hafa verið úrskurðaðir í Bangkok, höfuðborg Taílands, þar sem háhýsi í byggingu hrundi vegna skjálftans. Enn er verið að leita af 76 einstaklingum sem voru að byggja háhýsið þegar það hrundi. 

Sérfræðingar telja það muni vera mjög erfitt að endurbyggja í landinu eftir eyðilegginguna. Margir vegir og flugvellir eru eru illa farnir. 

Jarðskjálftinn olli mikilli eyðileggingu.EPA

Borgarastyrjöld hefur verið í gangi í landinu frá árinu 2021 eftir að herinn tók yfir stjórn landsins. Því er erfitt að fá upplýsingar um gang mála í landinu en að öllu jafna er erlendum blaðamönnum ekki hleypt inn í landið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×