„Ég veit ekki hvort við séum bara ekki vanar að vera í þessari stöðu [fá svona mörg færi]. Ég veit það ekki, en þetta var óheppni líka. Við komumst í góð færi allavega og það er jákvætt, en við verðum að koma honum yfir línuna í næsta leik“ sagði Sveindís einnig, sjáanlega svekkt með niðurstöðu leiksins.
Færasköpun hefur oft verið vandamál hjá íslenska liðinu, en var það alls ekki í dag. Sveindís segir liðið þó ekki hafa breytt neinu í sinni spilamennsku.
„Nei, ekkert þannig séð. Við erum kannski bara vanari að spila í þessum vindi og á gervigrasi, það virkaði fínt fyrir okkur en við verðum að vera grimmari fyrir framan markið og koma honum yfir línuna.“
Norska landsliðið saknaði slatta af góðum leikmönnum og var án tveggja stærstu stjarnanna, Caroline Graham Hansen og Ada Hegerberg. Í ljósi þess er svekkelsið enn meira hjá Íslandi, að hafa ekki náð í þrjú stig úr þessum leik.
„Jú og sérstaklega á heimavelli. Við vorum betri, komum okkur í betri færi en þær. Við verðum að fara að refsa úr góðu stöðunum sem við komumst í, en eins og ég segi, gerum bara betur í næsta leik.“
Sveindís var örlítið þreytt og haltraði inn í viðtalið, en sagðist vera í góðu lagi og klár í næsta leik gegn Sviss á mánudaginn. Ísland gerði einnig markalaust jafntefli við Sviss þegar liðin mættust í febrúar.
„Það er einfalt að segja það, en við þurfum bara að skora. Við munum fara yfir leikinn og sjá hvað við getum gert betur. Það eru fullt af möguleikum á móti Sviss, við skoðum síðasta leik á móti þeim og gerum betur. Setjum boltann yfir línuna“ sagði Sveindís að lokum.