Sport

Stelpurnar í BH enduðu 35 ára sigur­göngu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nýkrýndir Íslandsmeistarar í lið BH fagna titlinum í Kársnesskóla í gær.
Nýkrýndir Íslandsmeistarar í lið BH fagna titlinum í Kársnesskóla í gær. Borðtennisdeild BH

Kvennalið BH, Borðtennisdeildar Hafnarfjarðar, tryggði sér sögulegan sigur á Íslandsmóti liða í borðtennis í gær.

BH varð þá Íslandsmeistari kvenna í liðakeppni í efstu deild. KR eða Víkingur höfðu unnið alla titlana í liðakeppni kvenna undanfarin 35 ár og þetta var því sögulegur sigur.

BH vann Víking 3-1 í úrslitaleiknum. Stelpurnar í BH eru því bæði deildar- og Íslandsmeistarar kvenna í ár.

Lið BH var skipað þeim Sól Kristínardóttir Mixa, Agnesi Brynjarsdóttur og Vivian Huynh. Lið Víkings var skipað Lilju Rós Jóhannesdóttur, Halldóru Ólafs og Nevenu Tasic.

Víkingar urðu Íslandsmeistarar í liðakeppni karla í efstu deild. Úrslitaleikurinn á móti BH var æsispennandi og úrslit réðust í oddaviðureign þar sem Víkingar stóðu uppi sem sigurvegarar.

Víkingar unnu þar með Íslandsmeistaratitil karla annað árið í röð. Það var alþjóðlegur bragur á liðunum í dag og Víkingar voru með alþjóðlegasta liðið til að verða Íslandsmeistarar karla í borðtennis frá upphafi. Lið Íslandsmeistara Víkings var skipað Inga Darvis, Alexander Fransson Klerck og Carl Sahle.

Lið BH var skipað Matthias Sandholt, Birgi Ívarssyni, og Magnúsi Gauta Úlfarssyni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×