Þetta staðfesti Sölvi Geir Ottesen, þjálfari liðsins, í viðtali við Fótbolti.net. Hann segir Víkinga eðlilega mjög vonsvikna en Aron Elís hafi spilað vel að undanförnu og komið vel undan vetri.
Aron Elís meiddist gegn ÍBV í 1. umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu á mánudag. Hann meiddist í fyrri hálfleik og þó hann hafi getað gengið sjálfur af velli var strax talið að meiðslin gætu verið alvarleg. Nú hefur komið í ljós að aftara krossband í hné er slitið.
Í frétt Fótbolti.net segir að tvennt sé í stöðunni. Annars vegar að Aron Elís fari ekki í aðgerð og verði frá næstu 10-14 vikurnar. Fari svo að krossbandið grói ekki rétt þyrfti hann hins vegar að fara í aðgerð að því loknu. Sé það niðurstaðan yrði hann frá fram á næsta ár.
Um er að ræða gríðarlegt áfall fyrir Víkinga sem misstu varnarmanninn Jón Guðna Fjóluson endanlega út skömmu fyrir mót þar sem hann ákvað að setja skóna á hilluna. Þá er Pablo Punyed ekki kominn á fulla ferð eftir að slíta krossband í ágúst á síðasta ári.
Víkingur vann ÍBV 2-0 þrátt fyrir að vera manni færri nær allan síðari hálfleikinn eftir að Gylfi Þór Sigurðsson fékk rautt spjald fyrir glórulausa tæklingu.