Melsungen tryggði sig áfram í úrslit með 31-27 sigri gegn Balingen/Wetzlar í kvöld. Elvar Örn Jónsson skoraði eitt mark og gaf tvær stoðsendingar fyrir Melsungen í leiknum, sem var jafn að fyrri hálfleik loknum.
Melsungen brunaði svo fram úr í upphafi seinni hálfleiks og tók mest sjö marka forystu. Balingen/Wetzlar minnkaði muninn undir lokin en komst aldrei nálægt því að jafna.
Melsungen mun því leika til úrslita gegn Kiel, sem sló Rhein-Neckar Löwen út með 32-31 sigri eftir æsispennandi framlengdan leik.
Úrslitaleikurinn fer fram á morgun. Melsungen á harma að hefna eftir tap í úrslitaleiknum gegn Magdeburg á síðasta ári.
Íslendingalið mætast í bikarúrslitaleik í Ungverjalandi
Íslendingaliðin Veszprém og Pick Szeged munu mætast í úrslitaleik ungversku bikarkeppninnar í handbolta. Það varð ljóst eftir öruggan sigur liðanna í undanúrslitaleikjum sínum fyrr í dag.
Veszprém, lið Bjarka Más Elíssonar og Arons Pálmarssonar, vann þægilegan 40-26 sigur gegn Tatabánya í undanúrslitum. Pick Szeged, lið Janusar Daða Smárasonar, vann svo 34-29 gegn Gyöngyös í hinum undanúrslitaleiknum.
Liðin tvö eru þau langstærstu í ungverska handboltanum og hafa einokað bikarkeppnina síðustu áratugi.
Veszprém hefur unnið síðustu fimm ár og orðið bikarmeistari lang oftast, 31 sinnum alls, en Pick Szeged hefur unnið keppnina sjö sinnum, síðast árið 2019.