Eyþóra meiddi sig illa á ökkla í aðdraganda Ólympíuleikanna í París og missti fyrir vikið af leikunum. Hún átti þá góða möguleika á því að komast á sína þriðju Ólympíuleika í röð en ekkert varð að því vegna meiðslanna.
Hún lét þau risastóru vonbrigði ekki brjóta sig niður og sýndi styrk sinn á stóra sviðinu í gær.
Eyþóra komst í úrslit í bæði gólfæfingum og í æfingu á jafnvægisslá.
Enginn gerði betur en Eyþóra á jafnvægisslánni þar sem hún fékk 13.900 í einkunn og tók gullið.
Alþjóða fimleikasambandið birti myndband af siguræfingunni á miðlum sínum undir fyrirsögninni „Kennslustund í glæsileika“ eða „Elegance clinic“ á ensku.
Eyþóra er fædd og uppalin í Hollandi en á íslenska foreldra. Hún hefur alltaf keppt fyrir Holland og fór á Ólympíuleikana í Ríó 2016 og í Tókýó 2021.
Hér fyrir neðan má sjá gullæfingu hennar á jafnvægisslánni með því að smella í myndina hér fyrir neðan.