Viðskipti innlent

VÍS opnar aftur skrif­stofu á Akra­nesi

Lovísa Arnardóttir skrifar
Guðný Helga, forstjóri VÍS, til vinstri, og Ingibjörg Ólafsdóttir, nýr þjónustustjóri VÍS á Vesturlandi, til hægri.
Guðný Helga, forstjóri VÍS, til vinstri, og Ingibjörg Ólafsdóttir, nýr þjónustustjóri VÍS á Vesturlandi, til hægri. Aðsend

VÍS opnar í sumar aftur þjónustuskrifstofu á Akranesi. Í tilkynningu frá VÍS kemur fram að skrifstofan verði að Dalbraut 1, í sama húsnæði og Íslandsbanki. Tilkynnt var um samstarf VÍS og Íslandsbanka í janúar. Með samstarfinu njóta viðskiptavinir beggja félaga sérstaks ávinnings í vildarkerfum. VÍS hefur ekki rekið skrifstofu á Akranesi frá árinu 2018.

Í tilkynningu segir að opnun þjónustuskrifstofunnar séu liður í að efla enn frekar þjónustu VÍS á landsbyggðinni. Einnig var opnum þjónustuskrifstofa í Reykjanesbæ fyrir áramót.

„Þrátt fyrir að hægt sé að gera mjög margt á netinu tengt tryggingum þá vill fólk hafa valmöguleikann á að tala við aðra manneskju, sérstaklega í flóknari málum. Þá vilja viðskiptavinir okkar geta talað við einhvern sem getur leiðbeint þeim og tekið raunverulegt tillit til aðstæðna þeirra. Í slíkum aðstæðum skiptir sköpum að geta boðið upp á framúrskarandi þjónustu í heimabyggð. Við erum full tilhlökkunar að mæta aftur á Skagann,“ segir Guðný Helga Herbertsdóttir, forstjóri VÍS, í tilkynningu.

Þar kemur einnig fram að Ingibjörg Ólafsdóttir, betur þekkt sem Inga Óla, muni veita skrifstofunni forystu sem þjónustustjóri VÍS á Vesturlandi. Inga hefur starfað hjá VÍS í þrjá áratugi.

„Ég er stolt af því að leiða þjónustuna á Vesturlandi frá nýrri skrifstofu okkar í mínum heimabæ. Við höfum verið með tímabundnar opnanir síðustu mánuði sem viðskiptavinir og aðrir íbúar tóku mjög vel í þannig að það eru miklar gleðifregnir að hafa fundið varanlegt húsnæði fyrir starfsemina okkar á Akranesi,“ segir Inga Óla, þjónustustjóri VÍS á Vesturlandi.

Starfsmaður VÍS mun sitja í útibúi Íslandsbanka frá byrjun maí en skrifstofa VÍS mun opna á sumarmánuðum.

VÍS hefur áður rekið skrifstofu á Akranesi en lokaði henni, ásamt fleiri skrifstofum á landsbyggðinni, árið 2018. Vísað var til hagræðingar í starfi. Alls var átta skrifstofum lokað, starfsfólki sagt upp eða boðið nýtt starf, auk þess sem þrettán umboðsskrifstofum víða um land var lokað.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×