Íslenski boltinn

„Sýna þeim að þau gerðu mis­tök að segja samningnum upp“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Berglind Björg klæddi sig aftur í grænt þegar samningi hennar við Val var sagt upp eftir síðasta tímabil. 
Berglind Björg klæddi sig aftur í grænt þegar samningi hennar við Val var sagt upp eftir síðasta tímabil.  Breiðablik

Berglind Björg Þorvalsdóttir er mætt heim til Breiðabliks eftir vondan viðskilnað við Val, staðráðin í að sanna sig á ný eftir erfitt tímabil í fyrra. Hún kemur inn í mótið í ár í góðu formi, ekki misst af æfingu eða leik á undirbúningstímabilinu.

Breiðablik mætir Stjörnunni þegar deildin fer af stað klukkan sex í kvöld. Nágrannaslagur sem hefur boðið upp á markaveislur síðustu ár.

„Leikurinn leggst bara ótrúlega vel í mig. Maður er búinn að bíða lengi eftir þessum leik, eða bara að mótið byrji. Við erum allar mjög spenntar og tilbúnar í þetta“ sagði Berglind í samtali við Vísi.

Mikið meidd en átti gott undirbúningstímabil

Berglind kom inn í síðasta tímabil skömmu eftir barnsburð og glímdi við mikil meiðsli en hefur lagt inn góða grunnvinnu á undirbúningstímabilinu. Ekki misst af æfingu eða leik.

„Standið er bara heilt yfir fínt. Ég átti mjög gott undirbúningstímabil, ekkert bakslag. Ég var líka undir ströngu eftirliti af þjálfarateyminu, sem var mjög gott. Er bara í fínu standi, miklu betra en í fyrra… Mér leið vel þegar ég var að byrja [tímabilið í fyrra] en svo komu bara bakslög eftir bakslög. Var bara illt í grindinni og lífbeininu og bakinu, náði ekkert að byggja mig upp eftir meðgönguna. Svo hjálpaði undirlagið ekki, þannig að ég var bara ónýt í líkamanum á síðasta tímabili…“

Vondur viðskilnaður

Berglind gekk til liðs við Val þegar hún kom heim í fyrra. Þjálfarateymið vildi halda henni áfram hjá félaginu en stjórnin tók ákvörðun og rifti samningnum símleiðis.

„Þetta endaði bara ömurlega. Ég fékk símhringingu og fæ að vita að það sé búið að segja upp samningnum. Bara takk fyrir þitt framlag, það var nú ekki meira en það… Þetta var allt mjög skrítið og leiðinlegt, en bara ánægð í dag. Mjög ánægð að vera komin aftur heim í Breiðablik.“

Vill sýna að Valur hafi gert mistök

Leiða má líkur að því að Valur og Breiðablik verði í titilbaráttunni í sumar eins og síðustu tímabil. Berglind mætir eðlilega í þá baráttu í svolitlum hefndarhug.

„Þetta hefur alveg áhrif. Maður vill náttúrulega sýna þeim að þau gerðu mistök að segja samningnum upp. En neinei, þetta verður bara hörkumót.“

Berglind fagnar bikarmeistaratitlinum með Val á síðasta tímabili.Vísir/Anton Brink

EM í sumar? 

Reikna má einmitt með hörkumóti, sem hefst örlítið fyrr en vanalega vegna Evrópumótsins í Sviss í sumar. Ísland verður þar meðal þátttökuþjóða. Berglind á 72 A-landsleiki að baki en hefur ekki verið í liðinu síðan í febrúar 2023.

„Ef að Steini [Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari] væri búinn að heyra eitthvað í mér myndi ég segja að [EM] væri klárlega markmiðið. En ég hef ekkert heyrt frá manninum og nei, ég er í rauninni ekki að stefna á [EM] en maður veit aldrei. Fyrst og fremst ætla ég bara að fókusa á sjálfa mig, gera vel fyrir Breiðablik og svo bara kemur það í ljós.“

Berglind hefur spilað 72 A-landsleiki. Hér er hún á ferðinni gegn Frökkum á síðasta EM, í Englandi árið 2022.Getty/Alex Pantling

Líklega líta margir leikmenn deildarinnar á EM sömu augun. Vilja standa sig vel fyrir félagsliðið og vona að landsliðskallið berist í kjölfarið. Út frá því má reikna með kröftugri byrjun, engum vorbrag.

„Klárlega. Þetta er hvatning fyrir leikmenn að standa sig, sýna hvað þær geta og vonandi eiga séns á þessu landsliðssæti“ sagði Berglind að lokum.

Leikur Breiðabliks og Stjörnunnar verður í beinni útsendingu á rás Besta deildarinnar. Bestu mörkin gera leiki kvöldsins svo upp í beinu kjölfari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×