Íslenski boltinn

Byrjaði sem grín en endaði með því að Rö­mer fór frá Lyng­by til Akur­eyrar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Marcel Rømer og Sævar Atli Magnússon.
Marcel Rømer og Sævar Atli Magnússon. Lars Ronbog/Getty Images

Marcel Römer var fyrirliði Lyngby í efstu deild Danmerkur en þó ekki í myndinni hjá þjálfarateymi félagsins. Hann grínaðist með að vilja prófa eitthvað nýtt og er nú mættur til Akureyrar þar sem hann mun spila fyrir bikarmeistara KA í Bestu deild karla í fótbolta.

Hinn 33 ára gamli Römer samdi við KA á dögunum, flest öllum til mikillar undrunar. Hann ræddi vistaskipti sín við danska fjölmiðla og þar kom margt áhugavert í ljós. Til að mynda að Römer var ekki fúlasta alvara þegar Eggert Gunnþór Jónsson, liðsfélagi hans hjá Sönderjyske frá 2017 til 2019, fékk skilaboð um að Römer vildi spila á Íslandi.

„Það þekkjast allir á Íslandi og ég spurði hann hvort hann gæti ekki spurst fyrir og aðstoðað mig við að finna eitthvað þegar samningur minn við Lyngby rynni út.“

Eggert Gunnþór – sem þjálfar í dag KFA í 2. deildinni – þekkir Hallgrím Jónasson, þjálfara KA, vel og sendi honum línu. Það vildi svo til að Akureyringar voru í leit að akkeri á miðjuna.

„Það vantaði sexu og það hentaði mér mjög vel,“ sagði Römer áður en hann opinberaði að hann hafi verið á stefnumóti þegar Eggert Gunnþór hringdi í hann til að tilkynna honum að KA hefði áhuga.

„Þegar ég byrjaði að ræða við KA fann ég strax að þetta var eitthvað sem virkilega myndi henta mér og sem betur fer náðum við samkomulagi.“

Römer kemur til Akureyrar í vikunni og gæti spilað sinn fyrsta leik gegn lærisveinum Eggerts í KFA í Mjólkurbikarnum á föstudaginn kemur. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×