Ekkert eiginlegt menningarhús hefur verið til á Selfossi en á sama tíma er fokheldur menningarsalur í Hótel Selfossi, sem ekkert hefur gerst í og hefur hann staðið fokheldur í einhverja tugi ára.
Nokkrir karlar á besta aldri tóku sig því til og sömdu við Sveitarfélagið Árborg um að fá afnot af gamalli kartöflugeymslu, sem var reyndar fyrst grænmetisgeymsla og er frá 1952 og breyta geymslunni í menningarhús. Búið er að skrifa undir samning þess efnis og allt klárt fyrir fyrstu viðburði í geymslunni.
„Já, nú stendur til að lyfta menningunni svolítið á æðra plan. Við ætlum að grafa okkur niður í jörðina til að lyfta henni upp. Það eru við búnir að gera með því að stofna hér félag, sem heitir „Grasrótarfélagið Langhúsið““, segir Gunnar Sigurgeirsson, sem á sæti í stjórn félagsins.
„Þetta er náttúrulega bara menningarlega sinnaður félagsskapur, sem ætlar að efna til jaðar menningarsvæðis hér á Selfossi,” segir Magnús J. Magnússon, sem á einnig sæti í stjórninni.

„Nú heitir þetta Langhús því húsið er langt. Og þú sérð ekki neitt af þessu húsi nema framhliðina og búið,” bætir Bergsveinn Halldórsson við en hann situr líka í stjórn félagsins og átti meðal annars hugmyndina um að breyta kartöflugeymslunni í menningarhús.

Hreinn Óskarsson er líka í stjórn hússins.
Er stjórn geymslunnar í ruglinu eða hvað?
„Það má alveg segja það að taka svona gamalt hús já. Þetta er allavega vel notað hús og þetta verður skemmtileg nýjung að koma menningunni hérna inn í staðin fyrir kartöflur,” segir Hreinn léttur í bragði.
Félagarnir segja að húsnæðið muni nýtast undir fjölbreytta menningu eins og myndlistarsýningar, tónlistar uppákomur, upplestra og fleira og fleira í þessum dúr.
Og það þótti vel við hæfi að spila braggablús við opnun nýja menningarhússins, sem stendur rétt við Ölfusá á Langanesi á Selfossi eða fyrir utan á eins og heimamenn kalla svæðið.
