Áskorun

Sjálfið okkar: Að verða okkar besta út­gáfa

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Eitt það jákvæðasta við að verða okkar besta útgáfa er að þessi þjálfun er verkefni sem klárast aldrei; Því svo lengi lærir sem lifir! Og hversu frábært er það, að taka ákvörðun um að ætla alltaf að rækta okkur sjálf á uppbyggilegan hátt?
Eitt það jákvæðasta við að verða okkar besta útgáfa er að þessi þjálfun er verkefni sem klárast aldrei; Því svo lengi lærir sem lifir! Og hversu frábært er það, að taka ákvörðun um að ætla alltaf að rækta okkur sjálf á uppbyggilegan hátt? Vísir/Getty

Við tölum oft um bestu útgáfuna okkar. Þessa eftirsóttu útgáfu sem gerir okkur sterkari, hamingjusamari, kátari og svo framvegis. Best í samskiptum, best í að nýta styrkleikana okkar og svo framvegis og svo framvegis.

En hvernig náum við möguleika að vera þessi útgáfa?

Og er það yfir höfuð raunhæft markmið?

Jú; svo sannarlega getum við orðið að okkar bestu útgáfu alla daga. En það gerist ekki á einni nóttu. Því það að verða okkar besta útgáfa og lifa samkvæmt því, kallar á þjálfun eins og á við flesta aðra góða hluti líka.

Það sem skiptir samt máli er að líta á verkefnið sem verkefni út ævina. Því það að verða besta útgáfan af okkur sjálfum, er ekki verkefni sem við getum klárað.

Enda segir máltækið: Svo lengi lærir sem lifir.

En vá; Hversu gaman er það að vera í verkefni sem gengur endalaust út á að hlúa vel að okkur sjálfum, efla okkur á alls kyns vegu og auka á hamingju okkar og vellíðan?

Verkefni sem er aldrei of seint að byrja á og er alltaf hægt að halda áfram með?

Hér eru sjö hvetjandi skref sem geta hjálpað okkur.

1. Þú þarft að vita svarið þitt

Fyrsta atriðið er að átta okkur á því, hvers vegna við viljum verða þessi besta útgáfa af okkur. Því það er ekki nóg að segja það, við þurfum að skilja í hverju ávinningurinn felst fyrir alvöru.

Dæmi:

Ef þú vilt verða besta útgáfan af sjálfum þér í heilbrigðum lífstíl, veltu þá aðeins fyrir hvers vegna þig langar til þess? Hver er stærsta ástæðan og hvað væri það sem myndi svo sannarlega hvetja þig til dáða?

Sama gæti verið ef markmiðið okkar er að vera almennt alltaf jákvæð í samskiptum, taka aldrei þátt í baktali, vera brosmild og segja alltaf satt. 

Draumurinn okkar um bestu útgáfuna okkar getur verið alls konar og snýst ekki um neitt annað en það sem okkur langar helst að verða sálf.

2. Markmiðið þarf að vera skýrt 

Næst er síðan að setja okkur skýr markmið um hvað við þurfum að gera til að ná árangrinum sem við viljum. 

Rannsóknir sýna að við erum líklegri til að ná markmiðunum okkar, ef við skrásetjum þau. Skýringin er talin vera sú, að ef við látum það nægja að hugsa um hlutina er markmiðið í raun bara „ósk.“ En ef við skrifum markmiðið skýrt niður eða skrásetjum það einhvers staðar, er markmiðið frekar orðið raunverulegt.

Hér er líka ágætt að styðjast við einhverjar leiðir sem auka á líkurnar að við náum markmiðunum okkar. SMART aðferðin gæti til dæmis hentað en um hana má til dæmis lesa HÉR.

3. Hugarfarið þarf að vera jákvætt

Sama hvert markmiðið okkar er, náum við aldrei á leiðarenda nema við temjum okkur jákvætt hugarfar; Sérstaklega gagnvart okkur sjálfum. 

Grimma röddin, sem talar okkur niður í huganum, verður því að víkja. 

Nokkur atriði geta hjálpað okkur sérstaklega; Almennt að virkja okkur í að tala jákvætt við okkur sjálf og um okkur sjálf, nútvitund, samkennd við okkur sjálf eins og við sýnum öðrum, að vera í þakklæti og þjálfa okkur í því að vera þakklát og fleira.

4. Ég er forgangsverkefni

Við þurfum að setja okkur sjálf í forgang og venja okkur á að hugsa alltaf: Ég er forgangsverkefni.

Munum að leiðin til að verða besta útgáfan okkar byggir á okkur sjálfum og er aðeins ætlað að vera verkefni fyrir okkur sjálf (ekki annan aðila). 

5. Alls konar nýjar venjur

Til að ná markmiðum okkar og ná að verða okkar besta útgáfa, þurfum við líka að búa til nýjar og jákvæðar hefðir og venjur með okkur sjálfum. 

Dæmi: Að passa vel upp á svefninn gæti verið eitt atriði og eins líka að vinna í sjálfsmatinu okkar með einhverjum hætti.

Við breytum samt ekki öllu á einum degi, þannig að hér er upplagt að stefna að til dæmis einhverju einu atriði í einu og vinna að því í nokkrar vikur og koll af kolli.

6. Að bola uppgjöf í burtu

Að verða okkar besta útgáfa þýðir líka að í ýmsu munum við þurfa að fara út fyrir þægindarrammann okkar. Og stundum mun okkur líða eins og okkur sé ekki að takast eins vel upp og okkur langar til.

En vittu til; Svo lengi sem við gefumst ekki upp, náum við smátt og smátt alltaf að verða betri og betri útgáfa af okkur sjálfum. Til viðbótar við hvað við lærum mikið af mistökunum okkar.

7. Hrós og verðlaun

Þótt vegferðin taki okkur tíma, þurfum við að vera dugleg að fagna litlu sigrunum okkar, hrósa okkur sjálfum og mögulega verðlauna okkur á leiðinni.

Það sem er líka svo skemmtilegt er hversu margt við lærum um okkur sjálf á þessari vegferð. Að líta yfir farinn veg og hrósa okkur og verðlauna getur því verið skemmtileg leið til að halda okkur við efnið. Munum bara að hrós og verðlaun þurfa ekki að kosta neitt.


Tengdar fréttir

Sjálfið okkar: Að sporna við morgunfúlindum

Við segjumst ýmist vera A eða B týpur. Og ekki óalgengt að B týpurnar viðurkenni þá á sig að morgunstundin sé ekki beint sá tími dags þar sem þeir sýna á sér sínu bestu hliðar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.