Þrjátíu prestar sendu frá sér yfirlýsingu í gær þar sem þeir fordæmdu brottvísun hans og kröfðust þess að honum verði veitt dvalarleyfi.
Oscar er sautján ára drengur frá Kólumbíu sem kom fyrst til landsins með föður sínum árið 2022. Hann var beittur ofbeldi af föður sínum og tók íslensk fósturfjölskylda hann að sér. Þeim feðgum var báðum vísað úr landi í fyrra en fósturfjölskyldan sótti Oscar til Bogotá í Kólumbíu. Nú stendur til að vísa Oscari aftur úr landi. Samtökin No borders boðuðu til mótmælanna.
Hjónin Svavar Jóhannsson og Sonja Magnúsdóttir hafa gengið Oscari í foreldrastað og vilja taka hann að sér en mætt ýmsum hindrunum. Útlendingastofnun hefur tilkynnt Oscari að hann þurfi að yfirgefa Ísland á ný og geti ekki sótt aftur um vernd.




Fréttin hefur verið leiðrétt. Vísa á Oscari úr landi en ekki stendur til að gera það í dag eins og fyrst stóð í fréttinni. Leiðrétt klukkan 10:52 þann 22.4.2025.