Sanna skrifaði færslu í Rauða þráðinn, umræðuhóp Sósíalistaflokksins, fyrr í kvöld. Hún fór þar yfir af hverju flokkurinn var stofnaður og hvernig hann megi ná markmiðum sínum.
Hún segir fólk þurfa að muna af hverju Sósíalistaflokkurinn var stofnaður og hvað það er sem hann er að reyna að ná fram í íslensku samfélagi. Hún hafi farið út í baráttuna svo engin börn þurfi að upplifa „svengd, hungur og fátækt.“
„Því er ekki náð með því að horfa sífellt inn á við, á aðra félaga og hvað þeir gera eða gera ekki. Auðvitað er gagnrýnin umræða af hinu góða en engum árangri er náð ef allur tíminn fer í innri naflaskoðun án þess að starfa út á við fyrir fólkið,“ skrifar hún svo.
Þar vísar hún í ólgu innan flokksins sem hefur brotist út á Rauða þræðinum og á fundum flokksins. Þar hafa spjótin aðallega beinst að Gunnari Smára Egilssyni, formanni framkvæmdastjórnar flokksins og ritstjóra Samstöðvarinnar, sem hefur verið sakaður um þöggun og ofríki.
Sér á eftir Sólveigu Önnu
Undir lok færslunnar skrifar Sanna síðan: „Það er leitt að sjá á eftir góðu baráttufólki sem ég vona að komi aftur. Sameinuð stöndum við, sundruð föllum við.“
Án efa er Sanna þar að vísa í Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formann Eflingar, sem sagði sig úr Sósíalistaflokknum eftir ummæli Maríu Pétursdóttur, sem var þangað til nýverið formaður málefnastjórnar flokksins, sem hún skrifaði um Sólveigu fyrr í dag.
María skrifaði þar að Sólveig talaði inn í fasisma og öfga-hægristefnu og talaði gegn mannréttindum. Sólveig sagði að við það að lesa svívirðingar Maríu væri henni ljóst að hún ætti ekki lengur heima í Sósíalistaflokknum.
Fjöldi fólks hefur skrifaði ummæli við færslu Sönnu, þar á meðal Viðar Þorsteinsson, fræðslustjóri Eflingar og einn nánasti samstarfsfélgi Sólveigar Önnu, sem skrifar:
„Hefði verið gott ef forystan hefði stigið inn fyrr til að tempra ofstækið.“