Íslenski boltinn

Andri Rafn fimmti í þrjú hundruð leikja klúbbinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Breiðablik - Afturelding Besta Deild Karla Vor 2025
Breiðablik - Afturelding Besta Deild Karla Vor 2025 vísir/diego

Blikinn Andri Rafn Yeoman lék í kvöld sinn þrjú hundraðasta leik í efstu deild í fótbolta. Hann er sá fimmti sem nær þessum áfanga.

Andri lék allan leikinn þegar Breiðablik sigraði Stjörnuna, 2-1, í 3. umferð Bestu deildarinnar í kvöld. Höskuldur Gunnlaugsson skoraði sigurmark Blika í uppbótartíma.

Andri, sem er nýorðinn 33 ára, kom inn í lið Breiðabliks sumarið 2009 og hefur verið fastamaður hjá því síðan þá. Hann hefur þrisvar sinnum orðið Íslandsmeistari með Breiðabliki og einu sinni bikarmeistari.

Leikirnir í efstu deild eru nú orðnir þrjú hundruð talsins og Andri er kominn í fámennan hóp manna sem hafa náð þeim leikjafjölda.

Óskar Örn Hauksson er leikjahæstur í sögu efstu deildar með 382 leiki. Birkir Kristinsson kemur þar á eftir með 316 leiki. Daníel Laxdal, sem komst í þrjú hundruð leikja klúbbinn í fyrra, er í 3. sæti á leikjalistanum með 308 leiki og fyrrverandi samherji Andra hjá Breiðabliki, Gunnleifur Gunnleifsson, er í 4. sætinu með 304 leiki.

Andri hefur alls leikið 479 leiki fyrir Breiðablik og er langleikjahæstur í sögu félagsins.

Breiðablik er í 3. sæti Bestu deildarinnar með sex stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×