Sport

Sara, Ævarr og Galdur öll danskir meistarar í blaki

Sindri Sverrisson skrifar
Sara Ósk Stefánsdóttir, Ævarr Freyr Birgisson og Galdur Máni Davíðsson geta öll státað sig af því að vera danskir meistarar í blaki.
Sara Ósk Stefánsdóttir, Ævarr Freyr Birgisson og Galdur Máni Davíðsson geta öll státað sig af því að vera danskir meistarar í blaki. Mynd/Aðsend

Þrír Íslendingar urðu í vikunni danskir meistarar í blaki. Sara Ósk Stefánsdóttir fagnaði titlinum á þriðjudaginn með liði Holte og í gær urðu þeir Galdur Máni Davíðsson og Ævarr Freyr Birgisson meistarar með Odense Volleyball.

Líkt og síðustu ár mættust Holte og ASV Elite í úrslitaeinvíginu kvennamegin og líkt og fyrir ári síðan náði Holte að vinna einvígið án þess að tapa leik, eða 3-0.

Mikil spenna var þó í úrslitaeinvíginu en Holte vann alla leikina þar 3-2.

Raunar töpuðu Sara og stöllur hennar ekki einum einasta leik á tímabilinu og það var aðeins lið ASV Elite sem náði að vinna sett gegn Holte í vetur.

Sara Ósk Stefánsdóttir með verðlaunagripinn eftir að hafa orðið danskur meistari í blaki annað árið í röð.Mynd/Aðsend

Karlamegin hafði svo Odense betur gegn Gentofte og vann sömuleiðis 3-0 í úrslitaeinvíginu. Ævarr Freyr hafði verið valinn frelsingi ársins en tilkynnt var um valið áður en úrslitin hófust.

Þeir Ævarr Freyr og Galdur Máni hafa áður orðið Danmerkurmeistarar með Marienlyst.

Odense er danskur meistari í blaki karla.Mynd/Aðsend



Fleiri fréttir

Sjá meira


×