Í fréttatilkynningu segir að þetta sé í annað sinn sem verk eftir Hlyn sé valið í aðaldagskrá hátíðarinnar í Cannes. Árið 2022 tók mynd hans Volaða land þátt í flokki „Un Certain Regard“, og vann síðar til fjölda verðlauna. Myndin var framlag Íslands til Óskarsverðlauna 2024 og náði inn á stuttlista akademíunnar í flokki erlendra kvikmynda.
Hlynur heimsfrumsýndi einnig kvikmyndina Hvítan, hvítan dag í flokki „Semaine de la Critique“ í Cannes 2019.
„Ástin sem eftir er fangar ár í lífi fjölskyldu þar sem foreldrarnir stíga fyrstu skrefin í átt að skilnaði. Á fjórum árstíðum fylgjumst við með hversdagslífi fjölskyldumeðlima í gegnum óvænt, fyndin og hjartnæm augnablik sem endurspegla hið breytta samband þeirra,“ segir í fréttatilkynningu.

Þá segir að metfjöldi kvikmynda hafi sóst eftir heimsfrumsýningu í Cannes í ár, eða 2.909 verk. Sem fyrr segir er Hlynur fyrstur íslenskra leikstjóra til að heimsfrumsýna kvikmynd í Cannes Premiere-flokkinum, og slæst þar í hóp virtra leikstjóra eins og Fatih Akin, Sebastán Lelio, Takeshi Kitano og Leos Carax, sem hafa einnig frumsýnt nýjustu kvikmyndir sínar þar.
Anton Máni Svansson, hjá STILL VIVD, framleiðir myndina ásamt Katrin Pors hjá danska framleiðslufyrirtækinu Snowglobe. Með helstu hlutverk fara Saga Garðarsdóttir, Sverrir Guðnason, Ída Mekkín Hlynsdóttir, Þorgils Hlynsson, Grímur Hlynsson, Ingvar Sigurðsson, og Anders Mossling.
Kvikmyndahátíðin í Cannes fer fram í 78. sinn dagana 13. – 24. maí.