Sport

Sara ætlar að komast á heimsleikana í gegnum Afríku

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sara Sigmundsdóttir þarf að enda í fyrsta sæti á Rebel Renegade Games í Suður-Afríku til þess að tryggja sér sæti á heimsleikunum.
Sara Sigmundsdóttir þarf að enda í fyrsta sæti á Rebel Renegade Games í Suður-Afríku til þess að tryggja sér sæti á heimsleikunum. @sarasigmunds

Íslenska CrossFit konan Sara Sigmundsdóttir er ein þeirra sem keppast þessa vikurnar við að tryggja sig inn á heimsleikana í CrossFit í haust. Okkar kona ætlar aftur á móti að fara öðruvísi leið inn á leikana að þessu sinni.

Sara hefur ekki keppt á heimsleikunum síðan 2020 enda hefur hún verið afar óheppin með meiðsli undanfarin ár.

Sara er nú komin aftur á fullt skrið og hefur verið að taka þátt í mótum á þessu ári. Hún náði einnig bestum árangri Íslendinga í opna hluta undankeppni heimsleikanna.

Sara varð þar í fimmtánda á heimsvísu en líka í efsta sæti í Asíu. Hún æfir nú í Dúbaí í Sameinuðu arabísku furstadæmunum og keppir því ekki innan Evrópu í ár.

Sara ætlaði samt að keppa Wodland Fest mótinu á Malaga á Spáni sem var undankeppni Evrópu fyrir heimsleikana. Hún hefur hætt við það en Barbell Spin vefurinn fjallaði sérstaklega um fjarveru Söru.

Justin Cotler, þjálfari Söru, staðfesti við Barbell Spin vefinn að Sara ætlaði að einbeita sér að Rebel Renegade Games, sem er undankeppni Afríku. Sara ætlar sér því að komast á heimsleikana í gegnum Afríku.

Rebel Renegade Games fara fram í Suður-Afríku frá 30. maí til 1. júní. Sara má taka þátt í undankeppni Afríku þar sem hún er búsett í Sameinuðu arabísku furstadæmunum.

Keppendur sem eru með afrískt ríkisfang eða búa í einu af Persaflóalöndunum mega fara þessa leið.

Það má hins vegar ekkert klikka hjá Söru því aðeins eitt sæti er í boði í keppninni. Það er aðeins sú kona sem vinnur Rebel Renegade leikana sem fær farseðil á heimsleikana. Tvær efstu konurnar komst á heimsleikana í gegnum Wodland Fest mótið á Malaga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×